Erlent

Léleg aðsókn að myndinni um Han Solo setur áform Disney í uppnám

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Hans Óli og Loðinn á góðri stundu.
Hans Óli og Loðinn á góðri stundu.
Aðsókn að nýjustu Stjörnustríðs-myndinni, Solo, er vel undir væntingum og gæti það leitt til þess að Disney endurskoði framtíðaráform sín. Myndin þénaði innan við 150 milljónir dollara á heimsvísu yfir frumsýningarhelgina.

Það er ágætis upphæð en bliknar í samanburði við þær 290 milljónir dollara sem Stjörnustríðs-myndin Rogue One halaði inn fyrstu helgina sem hún var sýnd árið 2016. Alls greiddu kvikmyndahúsagestir rúman milljarð dollara til að sjá Rogue One í kvikmyndahúsum.

Nú er útlit fyrir að aðsóknin að Solo verði meira en helmingi minni en að Rogue One og endi með því að skila aðeins 400 milljónum dollara í kassann.

Disney, sem keypti öll réttindi tengd Stjörnustríði árið 2012, hefur áformað að senda frá sér minnst eina Stjörnustríðs-mynd á ári. Þau áform gætu nú verið í uppnámi, enda var gert ráð fyrir að Solo skilaði töluvert meiri hagnaði en nú stefnir í.

Hugsanlegt er að hægt verði á útgáfu myndanna, hætt við einhverjar myndir sem voru áformaðar og reynt að frumsýna næstu myndir ekki á sama tíma og aðrar vinsælar Hollywood kvikmyndir á sumrin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×