Íslenski boltinn

Skagamenn töpuðu tveimur stigum á heimavelli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhannes Karl er þjálfari Skagamanna.
Jóhannes Karl er þjálfari Skagamanna. vísir/stefán
Njarðvík gerði sér lítið fyrir og náði stigi á Skipaskaga er liðið gerði 2-2 jafntefli við heimamenn í ÍA í fjórðu umferð Inkasso-deildar karla.

Fyrsta markið kom strax á fjórðu mínútu en gestirnir komust yfir. Þar var á ferðinni Stefán Birgir Jóhannesson og þannig stóðu leikar allt þangað til á 36. mínútu er Stefán Teitur Þórðarson jafnaði metin.

Skagamenn voru sterkari í upphafi síðari hálfleiks og komust yfir með marki frá varamanninum Andra Adolphssyni á 66. mínútu.

Njarðvík fékk gullið tækifæri til þess að jafna metin á 74. mínútu en Andri Fannar Freysson misnotaði vítaspyrnu. Tólf mínútum síðar jöfnuðu þeir þó metin en Magnús Þór Magnússon kom þá boltanum í netið. Lokatölur 2-2.

Skagamenn eru í öðru sæti deildarinnar með tíu stig, jafn mörg og HK sem er á toppnum, en lakari markahlutfall. Nýliðar Njarðvíkur eru í fimmta sætinu með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×