Dana White, forseti UFC, ætlar að nýta ferðina til Englands um helgina til þess að ræða við stærstu stjörnu bardagasambandsins, Conor McGregor.
Það hefur lítið farið fyrir Íranum síðan hann gekk berserksgang í New York og var að lokum handtekinn. Hann fékk margar kærur á sig og verður nóg að gera hjá honum að sinna því næstu mánuði.
„Við ætlum að setjast niður í rólegheitunum og ræða framtíðina. Hvað hann vilji gera næst,“ sagði White.
Það er UFC-kvöld í Liverpool á sunnudag og þangað kemur Conor til þess að ræða við forsetann.
Írinn hefur ekki barist síðan í nóvember árið 2016 en hann varð þá fyrsti tvöfaldi meistarinn hjá UFC.

