Lífið

Barnaherbergin ekki eins og á Pinterest: „Mér féllust algjörlega hendur og reif mig niður“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Anna Ýr Gísladóttir
Anna Ýr Gísladóttir Úr einkasafni/Pinterest
„Í hvernig gerviveröld lifi ég eiginlega?“ spurði Anna Ýr Gísladóttir sjálfa sig þegar hún bugaðist yfir því að barnaherbergin á heimilinu væru ekki eins og þau sem hún sér hjá öðrum á samfélagsmiðlum. Hún telur að vandlega uppstilltar myndir sem þessar geti skekkt sýn fólks á raunveruleikann og haft áhrif á sjálfsálit þeirra sem skoða þær. Sjálf á hún tvær stelpur og eftir flutninga tók við það verkefni að útbúa handa þeim herbergi.

„Unnusti minn heitir Sigurður Nathan og saman eigum við tvær stelpur. Eldri stelpan okkar er stjúpdóttir mín, hún heitir Matthilda en er vanalega kölluð Matta og er fimm ára gömul. Yngri stelpan okkar er sjö mánaða og heitir Magdalena Kristín.

Hlakkaði til að hanna barnaherbergin

Anna Ýr er lærður förðunarfræðingur og vinnur við förðun en einnig á tannlæknastofu og í versluninni Snúrunni auk þess sem hún er pistlahöfundur á síðunni Pigment.is. Þar birti hún pistilinn Gerviöldin um barnaherbergin á dögunum og hefur hann vakið mikla athygli.

„Þegar sá dagur rann upp að ég hreinlega bugaðist yfir því hversu ólík barnaherbergin okkar voru þeim sem ég hafði hugsað mér og séð á samfélagsmiðlum þá spurði ég sjálfa mig „Í hvers lags gerviveröld lifi ég eiginlega í?“ Við fjölskyldan höfðum nýlega flutt í glænýtt húsnæði og vorum í fyrsta sinn að upplifa þann munað að hafa aðgang að barnaherbergi. Húsnæðið sem við bjuggum í áður var einungis með einu svefnherbergi sem við vorum öll fjögur í. Ég hlakkaði mest til þess að geta hannað barnaherbergin en það runnu á mig tvær grímur þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ef til vill gert of mikla kröfur og varð að horfast í augu við raunveruleikann.“

Systurnar Magdalena Kristín og MatthildaÚr einkasafni
Anna Ýr byrjaði að hafa sívaxandi áhuga á barnaherbergjum frá þeim degi sem hún varð stjúpmóðir Matthildu.

„Ég get ekki beinlínis sagt að ég hafi leitað að innblæstrinum heldur er þetta hálf óumflýjanlegt myndi ég segja. Að minnsta kosti er mitt Facebook yfirfullt af bloggfærslum sem snúa að innblæstri fyrir barnaherbergi, auglýsingar frá fyrirtækjum sem selja barnavörur, á Instagram og í umfjöllun á Snapchat svo ég tali nú ekki um tímaritin, bæði þá lífstílstímarit og dagblöð. Í þau skipti sem ég leitaði sjálf eftir innblæstri var þegar ég fór inn á Pinterest í leit að einhverju sérstöku.“

Stílhreint og fallega uppstillt

Fyrir eldri stelpuna sá hún fyrir sér að blanda saman skandinavískum og amerískum stíl í barnaherberginu.

„Vintage bleikur er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hafði séð fyrir mér að litapallettan væri í þeim lit ásamt hvítum og pastelgráum. Sprautulökkuð húsgögn í gamaldags stíl og leggja áherslu á dúkkudót þar sem hún er mikill dúkkuaðdáandi. Átti þá að splæsa í falleg viðardúkkuhúsgögn í sama stíl, hlýlega bleika mottu á gólfið, hönnunarrúmföt úr 100 prósent lífrænum bómull, kósíhorn með indjánatjaldi, fallegum púðum og ljósaseríu í kring. Öll leikföng áttu að eiga sinn stað í herberginu og til stóð að fækka leikföngum verulega svo hægt væri að stilla öllu fallega upp.“

Fyrir yngri stelpuna hafði hún séð fyrir sér að hafa sama stíl með smáum breytingum. Aðalatriðið var að hún sá fyrir sér að herbergið væri stílhreint í alla staði.

„Ég vildi halda sömu litapallettu og var í herbergi eldri stelpunnar að einhverju leyti, en ákvað að leyfa pastelgrænum og steingráum að vera með til þess að gera þetta aðeins litríkara og aðeins barnalegra. Ég hafði séð fyrir mér fallega mottu við skiptiborðið, hönnunarrúm sem væri hjarta herbergisins, pastellitaða óróa sem ég hefði sjálf heklað, grá pastellituð rúmföt og tuskudýr í stíl við rúmfötin.“

Herbergi MatthilduÚr einkasafni

Vildi ekki láta leikföngin hverfa

Þegar kom að því að framkvæma þetta varð útkoman ekki alveg eins og hún hafði séð fyrir sér.

„Rúmið var sprautulakkað hvítt og gamaldags eins og ég hafði hugsað mér. Ég gat ómögulega farið að láta hvolpasveitarrúmfötin hverfa sem Matta elskar svo ég ákvað að leyfa þeim að vera um sinn. Fyrsti skellurinn var sá að ég þurfti að gleyma þessari mottu þar sem að það hefði ekki verið hægt að opna skúffurnar undir rúminu hefði hún verið á gólfinu. Ég var fljót að sjá að ég hafði ekki úr mörgum fermetrum að velja svo að tjaldið komst alls ekki fyrir svo þetta blessaða kósíhorn mitt þurfti einnig að fá að fjúka. Svo vildi sú stutta fara að lita að sjálfsögðu og ég fylltist hryllingi yfir því að parketið yrði útkrotað á gólfinu hjá henni. Hentist út í Ikea og verslaði skrifborð og skrifborðsstól. Þá var ekki mikið eftir af leikplássi inni í herberginu hennar. Dúkkuhúsgögnin fallegu sem ég hafði keypt gátu þess vegna ekki verið jafn snyrtilega uppstillt og ég hafði séð fyrir mér. 

Ég var með samviskubit yfir því að láta einhver leikföng hverfa án hennar samþykkis þar sem ég þoldi ekki slíkt þegar ég var lítil. Svo næst þegar hún kom til okkar fórum við yfir leikföngin og hún gat losað sig við eitthvað af dóti en afskaplega fátt svo enn og aftur var hugmyndin mín um hið snyrtilega og stílhreina barnaherbergi bjagaðri sem aldrei fyrr.“

Anna Ýr var fljót að sjá að stærstu leikföngin eins og eldhúsið og Barbiebíllinn komust hvergi annars staðar fyrir en á gólfinu.

„Þau voru því miður eitthvað allt annað en pastellituð og pössuðu alls ekki við gardínurnar eða rúmfötin. Svo þegar ég hafði gert herbergið tilbúið fyrir Möttu þá vildi hún að sjálfsögðu fara að leika sér í herberginu sínu. Matta leikur sér á nákvæmlega sama hátt og ég gerði þegar ég var lítil. Það er allt herbergið undirlagt og það sést aldrei í gólfið og hún er að nota allt dótið í einu. Ég var fljót að sjá að ef ég ætti að halda þessu herbergi jafn uppstilltu og snyrtilegu og ég hafði séð fyrir mér að þá þyrftum við mæðgur aldeilis að láta hendur standa fram úr ermum. En ég er ósköp eðlileg tveggja barna móðir, í vinnu og að reka heimili og ég hef engan tíma til þess að vera stöðugt að raða leikföngum hornrétt. Þetta endaði því þannig að settar voru upp hillur fyrir stærstu leikföngin, tjaldið stendur upp á annan endann svo hægt sé að nálgast tjaldið þegar menn eru í útilegustuði. 

Matta listmálari krotar út fyrir á skrifborðinu sínu og ég varð að syrgja hið áður skjannahvíta borð og læra að elska tússlitaförin á borðinu. Hvert leikfang á ekki beinlínis sinn stað, en þetta er flokkað að einhverju leyti. Svo núna þegar elsku Matta okkar er hjá okkur þá fær hún að leika sér og svo hjálpumst við að við að ganga frá en eyðum ekki allt of miklum tíma í það, reynum bara að ganga frá svo hægt sé að ganga um og að þetta sé svona þokkalega snyrtilegt. Markmiðið er aðallega að hægt sé að þrífa herbergið og að kenna stelpunni okkar að ganga frá eftir sig.”

Svona hafði Anna Ýr stillt upp skiptiborðinu áður en stelpan kom í heiminn. Hún var fljót að sjá að blóm og kerti þyrftu að fjúka fyrir gagnlegri hluti.Úr einkasafni

Mottan eyðilagðist á nokkrum dögum

Sömu sögu má segja um það sem Anna Ýr gerði fyrir yngri stelpuna sína. Raunveruleikinn var ekki í takt við væntingarnar.

„Þegar ég var ófrísk skrifaði ég pistil á Pigment.is um skiptiaðstöðuna hennar þar sem allt var uppstrílað. Það er efni í annan pistil að ræða um hversu óraunhæf þessi skiptiaðstaða var. Þegar hún var aðeins nokkurra daga gömul þá eyðilagðist mottan undir skiptiborðinu því það getur ýmislegt gerst á skiptiborðinu, ég fer ekki nánar út í það nákvæmlega en það var ansi skrautlegt. Hillurnar í kring um skiptiborðið fylltust fljótlega af sótthreinsispritti, nefsugum og hitastílum. Eftir á að hyggja skil ég ekki alveg hvers lags vitleysa það var að halda að ég þyrfti á kertastjaka og blómapotti að halda á meðan ég skipti á nýfæddu barninu okkar.“

Anna Ýr skammaðist sín samt fyrir skiptiaðstöðuna þegar gesti bar að garði því hún leit á engan hátt út eins og hún hafði séð fyrir sér upprunalega.

„Hún vill ekki sjá tuskudýrið sem er í stíl við rúmfötin heldur hefur hún tekið ástfóstri við skærgrænum drekabangsa úr IKEA. Ég hef aldrei gefið mér tíma í að strauja rúmfötin hennar eins og ég ætlaði alltaf að gera. Hún er heilluð af óróa sem inniheldur köngulær og fleiri skemmtileg skordýr sem eru í öllum regnbogans litum. Hún er enn í vöggu og ég býst við að við fjárfestum í rúmi úr IKEA eftir allt saman. Það eina sem hélt velli voru vintage-bleikar gardínur og pastellittað veggskraut.“

Litdaprir hlutir áberandi í barnaherbergjum

Hún upplifir núna blendnar tilfinningar þegar hún skoðar barnaherbergi hjá öðrum á bloggum og samfélagsmiðlum.

„Ég fyllist aðdáun fyrst um sinn, en á eftir fylgir vonleysi, bugun og skilningsleysi yfir því af hverju okkar barnaherbergi eru ekki eins.“

Önnu Ýr finnst litdaprir hlutir áberandi við þann stíl af barnaherbergjum sem er svo vinsæll núna.

„Ég er enginn sérfræðingur en mín reynsla er sú að börn elska litríka hluti og á fyrstu mánuðum ævinnar sjá þau miklu betur áberandi liti heldur en gráleita pastelliti svo ég tel það vera hagur allra bæði barna og foreldra að hafa húsgögn og leikföng í áberandi litum í það minnsta á fyrstu árum ævinnar. Herbergin eru einnig áberandi stílhrein og erfitt er að ímynda sér að þau séu til þess fallin að barn geti notið þess að leika sér í þeim. Ég hef til að mynda oft rekist á myndir af barnaherbergjum þar sem engin leikföng eru sjáanleg, einungis skrautmunir, en samt er herbergið í eigu þriggja ára gamals barns. Ég set stórt spurningarmerki við slík herbergi þar sem að það lítur út fyrir að herbergið eigi ekkert erindi við þriggja ára gamla barnið sem er eigandi þess.“  

Mynd/Pinterest

Skekkja sýn fólks á raunveruleikann

Anna Ýr stóð í þeirri meiningu að þessi herbergi séu alltaf svona „fullkomin“ eins og á myndunum þar til að hún sá sitt eigið barn að leik í sínu herbergi og fór að rifja upp eigin barnæsku.

„Mamma mín útbjó afskaplega fallegt herbergi fyrir mig sem barn, og hún kenndi mér hvernig ég átti að raða púðunum í rúminu mínu rétt og hvernig væri best að ganga frá í herberginu. Ég held að herbergið mitt hafi einu sinni verið „fullkomið“ og það var þegar ég hafði eytt óratíma í að laga til í herberginu, svo náði ég í mömmu og bað hana um að taka mynd af herlegheitunum. Daginn eftir var allt komið aftur á hvolf í herberginu. Ég komst aldrei upp með að hafa allt í drasli en átti einmitt mjög ófríða dótakassa sem voru geymdir undir rúmi og öllu dótinu var hrúgað ofan í þá vanalega. Svo að ég hefði aldrei átt að fyllast vonleysi til að byrja með því mín reynsla er sú að það er ekki hægt að halda í við slíka „fullkomnun“ nema kannski með einstakri eljusemi.“

Hún telur að fullkomnar uppstilltar myndir á samfélagsmiðlum geti haft neikvæð áhrif á þá sem skoða þær.

„Ég tel þær skekkja sýn fólks á raunveruleikann, lækka sjálfsálit og valda vonbrigðum.“

Hægt er að fylgjast með Önnu Ýr á Pigment.is og á Instagram (annayrmakeupartist).Úr einkasafni

Pinterest hugmyndirnar mæta afgangi

Barnaherbergin sem hún hafði séð fyrir sér voru  ekki raunhæfur kostur fyrir þeirra heimili.

„Við erum bæði útivinnandi foreldrar, með tvö ung börn að reka heimili. Herbergin verða að ,,virka“ fyrir alla fjölskyldumeðlimi.  Ég hef margoft rekið mig á það að sumt einfaldlega gengur ekki upp ef vel á að ganga. Markmiðið á okkar heimili er að verja sem minnstum tíma í húsverk svo við fáum sem mestan frítíma.“ Matthilda var virkilega ánægð með fallega herbergið sitt.

„Hún er afskaplega stolt af því og passar upp á að allir sem berja að dyrum komi og sjái herbergið hennar. Ég var fljót að sjá að það er það eina sem skiptir máli.“

Næsta verkefni er svo að útbúa herbergi fyrir yngri stelpuna. „Ef ég set mig í spor dóttur minnar þá hugsa ég að hún myndi velja litríkt frumskógarþema með öllum regnbogans litum. Eins og áður sagði þá vil ég að herbergið ,,virki“, að aðgengi sé gott og að auðvelt sé að laga til í því. Mínar Pinterest hugdettur fá að mæta algjörum afgangi hér eftir.“

Ástæða þess að Anna Ýr ákvað að skrifa bloggfærslu um barnaherbergin var að hún vildi að fólk vissi að hennar líf væri ekki eins og klippt út af Pinterest.

„Ég hef alltaf viljað koma til dyranna eins og ég er klædd og ég vil að fólk viti að þrátt fyrir að ég sé lífsstílsbloggari þá er líf mitt engin glansmynd. Ég var í miðjum klíðum að breyta og bæta herbergi eldri stelpunnar og mér féllust algjörlega hendur og reif mig niður. Eftir smá umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að svona hugsanir ættu alls engan rétt á sér og ég varð bara hreinlega að koma þessu frá mér.“

Anna Ýr segir að með þessu sé hún alls ekki að setja út á fagurkera, hönnuði, Pinterest eða slíkt.

„Ég  viðurkenni fúslega að ég dáist að þeim sem eru framar en ég í þessum efnum og ég er mikil áhugamanneskja um falleg barnaherbergi og mun áfram láta mig dreyma um hið „fullkomna“ barnaherbergi. Við eigum að fagna því að netið er stútfullt af góðum hugmyndum, við þurfum kannski ekki að nýta þær allar samt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.