Erlent

Ariana Grande með áfallastreituröskun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Söngkonan prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vogue.
Söngkonan prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vogue. Vogue
Söngkonan Ariana Grande segir að hún muni aldrei getað talað um sprengjuárásina í Manchester án þess að bresta í grát. Hryðjuverkamaður sprengdi sig í loft upp á tónleikum hennar þann 22. maí í fyrra með þeim afleiðingum að 22 biðu bana.

Í samtali við bresku útgáfu glansritsins Vogue segir Grande að hún hafi allar götur síðan þjáðst af áfallastreituröskun.

„Það er erfitt að tala um þetta vegna þess að það urðu svo margir fyrir gríðarlegum þjáningum,“ segir Grande.

Sjá einnig: Ariana Grande gerð að heiðursborgara í Manchester

Hún segist þekkja vel til þeirra aðdáenda sinna sem voru á tónleikunum örlagaríku. Þeir sem komust lífs séu margir hverjir einnig að kljást við sálrænar afleiðingar sprengingarinnar.

Söngkonan segir jafnframt að hún fá samviskubit þegar hún ræði opinberlega um atburðina í Manchester. Þrátt fyrir áfallastreituröskunina hafi aðrir þjáðst miklu meira en hún. „Ég held að ég muni aldrei getað rætt um þetta án þess að gráta,“ segir Grande í samtali við Vogue.

Fyrr í þessum mánuði lét söngkonan húðflúra á sig býflugu á bakvið vinstra eyrað. Býflugur urðu táknmynd samstöðunnar í Manchester eftir sprenginguna, enda duglegt dýr með eindæmum.


Tengdar fréttir

Fyrsta lagið eftir árásina í Manchester

"No Tears Left to Cry“ er fyrsta lagið sem söngkonan Ariana Grande gefur út síðan hryðjuverkamaður sprengdi sprengju fyrir utan Manchester Arena tónleikahöllina þar sem söngkonan hélt tónleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×