Erlent

Skaut óvart mann eftir misheppnað heljarstökk á dansgólfinu

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Myndir segja oft meira en þúsund orð.
Myndir segja oft meira en þúsund orð. Twitter/Ryan Hareer
Alríkislögreglumaður í borginni Denver í Bandaríkjunum skaut óvart mann á dansgólfi skemmtistaðar í gær þegar sá fyrrnefndi var að reyna að sýna viðstöddum danshæfileika sína.

Lögreglumaðurinn, sem var ekki á vakt, steig trylltan dans einn síns liðs á miðju gólfinu við góðar undirtektir bargesta. Þegar hann ætlaði að bæta um betur með heljarstökki vildi ekki betur til en svo að skammbyssa losnaði úr buxnastreng hans og féll á dansgólfið.

Fyrstu viðbrögð hans voru að grípa byssuna en þá var hann svo óheppinn að grípa einmitt í gikkinn með þeim afleiðingum að skot hljóp úr byssunni og hæfði einn bargestinn í fótlegginn. Sá var fluttur á sjúkrahús þar sem kúlan var fjarlægð en reyndist hafa sloppið nokkuð vel.

Ekki er ljóst hvort alríkislögreglumaðurinn verður ámyntur eða jafnvel ákærður vegna málsins. Til allrar hamingju náðist þó myndband af atvikinu og gengur það eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla þessa stundina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×