Íslenski boltinn

Valskonur slógu FH örugglega út

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðrún Karítas, til hægri, skoraði tvö mörk fyrir Val.
Guðrún Karítas, til hægri, skoraði tvö mörk fyrir Val. vísir/valur
Valur mun spila til 8-liða úrslita í Mjólkurbikar kvenna eftir stórsigur á FH á Hlíðarenda í 16-liða úrslitunum í dag.

Valskonur höfðu aðeins tapað einum leik í sumar fyrir þennan leik en FH-ingar eru aðeins með einn sigur úr fimm leikjum í deildinni til þessa. Liðin komu bæði inn í Mjólkurbikarinn í 16-liða úrslitum líkt og önnur lið í Pepsideildinni og höfðu því ekki spilað bikarleik til þessa á tímabilinu.

Crystal Thomas skoraði fyrsta mark leiksins eftir 21 mínútu eftir gáleysi í varnarleik FH þar sem hún var óvölduð í teignum. Guðrún Karítas Sigurðardóttir bætti svo öðru marki Vals við rétt fyrir lok fyrri hálfleiks með glæsilegu skoti í fjærhornið.

Crystal skoraði annað mark sitt og þriðja mark Vals strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Guðrún Karítas skoraði sitt annað mark á 63. mínútu og kom Val í 4-0.

Gestirnir úr Hafnarfirði náðu aðeins að klóra í bakkann undir lok leiks þegar þær fengu vítaspyrnu á 83. mínútu. Marjani Hing-Glover fór á punktinn og skoraði örugglega.

Fleiri urðu mörkin ekki, 4-1 sigur Vals sem fer í 8-liða úrslit en FH situr eftir og keppir ekki meir í bikarnum í ár.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×