Minnst sautján eru látnir eftir að hafa troðist undir í mikilli mannþröng á skemmtistað í Caracas, höfuðborg Venesúela.
Innanríkisráðherra landsins, Néstor Reverol, staðfesti tölu látinna í dag en upptök atviksins eru rakin til táragassprengju sem sprengd var í kjölfar ryskinga milli manna á staðnum.
Flestir á skemmtistaðnum, Club Los Cotorros, voru þar staddir til að fagna skólaslitum og eru flestir hinna látnu taldir vera á aldrinum 16-20 ára.
Á meðal þeirra sem eru í haldi lögreglu vegna málsins er eigandi skemmtistaðarins auk tveggja manna undir lögaldri.

