„Þann 19.júní 1915 fengu konur eldri en fertugar kosningarétt. Margt hefur áunnist síðan þá með baráttu kvenna fyrir kjörum sínum og réttindum. Samt sem áður er það staðreynd að núna, 103 árum síðar, berst kvennastéttin ljósmæður fyrir réttindum sínum og því að störf þeirra og menntun séu metin til launa.
19 ljósmæður hætta störfum þann 1.júlí vegna aðgerðaleysis stjórnvalda. Sýnum stuðning okkar á táknrænan hátt með því að standa saman með ljósmæðrum í Mæðragarðinum við styttu Nínu Sæmundsson, Móðurást.”
Hvetja þær sem flesta til að mæta og styðja þannig ljósmæður í kjarabaráttunni.
„Fjölmennum öll, við sem fæddumst flest inn í þennan heim með aðstoð ljósmæðra, fullorðin börn, lítil börn og bumbur stöndum með ljósmæðrum 19.júní. ”
Ljósmæður felldu í síðustu viku nýjan kjarasamning sem fulltrúar þeirra og íslenska ríkisins undirrituðu. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar og hefur fjöldi ljósmæðra á Landspítalanum sagt upp störfum undanfarið.