Íslenski boltinn

Fylkir sló bikarmeistarana úr leik og spilar til undanúrslita

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fylkiskonur féllu úr efstu deild síðasta haust
Fylkiskonur féllu úr efstu deild síðasta haust vísir
Inkassodeildar lið Fylkis sló út bikarmeistara ÍBV í 8-liða úrlsitum Mjólkurbikars kvenna í Árbænum í kvöld. Marija Radojicic skoraði sigurmarkið á síðustu mínútum leiksins.

Fylkir komst óvænt yfir strax á 14. mínútu leiksins með marki frá Thelmu Lóu Hermannsdóttur sem slapp ein inn fyrir vörn ÍBV. Bikarmeistararnir svöruðu áður en flautað var til hálfleiks, Shameeka Fishley skoraði eftir hornspyrnu.

Minnstu munaði að Fylkir kæmist yfir strax í upphafi seinni hálfleiks en Emily Armstrong varði skalla Mariju Radojicic í slánna. Það var hins vegar ÍBV sem skoraði næsta mark, það gerði Caroline van Slambrouck með skalla eftir aukaspyrnu Júlíönu Sveinsdóttur.

ÍBV var þó ekki yfir lengi því eftir fjórar mínútur var Þórhildur Ólafsdóttir búin að jafna fyrir Fylki. Marija skoraði síðan sigurmarkið með þrumuskoti á fjærstöngina á 86. mínútu.

Gleðin var þó ekki langlíf hjá markaskoraranum því Marija fékk sitt annað gula spjald á 89. mínútu og varð því að fara snemma í sturtu.

ÍBV pressaði stíft að marki Fylkis síðustu mínúturnar en án árangurs, Fylkir sigraði með þremur mörkum gegn tveimur og spila Árbæingar til undanúrslita á meðan bikarmeistararnir eru úr leik.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×