Erlent

Zika-veiran mynduð í návígi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Zika-veiran. Grænu punktarnir eru lykkjur fjölsykra.
Zika-veiran. Grænu punktarnir eru lykkjur fjölsykra. Fréttablaðið/Purdue
Vísindamenn við Purdue-háskóla í Bandaríkjunum hafa fangað einstakar myndir af Zika-veirunni, sem olli faraldri í Suður-Ameríku árið 2015 og meiriháttar fæðingargöllum hjá þúsundum barna.

Vísindamenn hafa hingað til ekki getað stuðst við ítarlega mynd af ytra byrði veirunnar en vonast er til að þessar nýju upplýsingar muni leiða til uppgötvunar nýrra lyfjamarka og í kjölfarið betri meðferða við Zika-smiti.

Þessi ítarlega mynd af Zika-veirunni fékkst í gegnum rafeindasmásjá. Með því að skjóta rafeindum, sem hafa styttri bylgjulengd en sýnilegt ljós, í gegnum efniseindir er hægt að greina minnstu smáatriði, og það heppnaðist í tilrauninni við Purdue-háskóla.

Niðurstaðan er nákvæmasta mynd sem tekin hefur verið af ytri skel veiru. Nú þegar hefur myndgreiningin leitt í ljós að lykkjur fjölsykra á yfirborði veirunnar orsaka sum einkenni Zika-smits.

Zika er svokölluð flavi-veira, líkt og beinbrunasótt og heilasótt, en með því að bera saman ítarlegar myndir af veirunum sáu vísindamenn afar mismunandi birtingarmyndir lykkjanna og gæti það útskýrt af hverju Zika veldur jafn skelfilegum einkennum og raun ber vitni.

Tilfellum Zika-sýkinga hefur farið fækkandi í Suður-Ameríku undanfarin misseri. Engu að síður eru nokkrir hópar vísindamanna sem vinna nú að þróun bóluefnis. Sú ítarlega mynd sem nú er til af veirunni er sögð skipta sköpum í því kapphlaupi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×