Erlent

Pálmaolían slæm en aðrir valkostir enn verri

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Olían er unnin úr ávexti pálmanns og er notuð í fjölda matvara og snyrtivara
Olían er unnin úr ávexti pálmanns og er notuð í fjölda matvara og snyrtivara Vísir/Getty
Engir góðir valkostir eru í boði til að koma í stað pálmaolíu, þrátt fyrir að notkun hennar sé í dag gríðarlegt umhverfisvandamál.

Neysla pálmaolíu hefur vaxið hratt í heiminum síðustu áratugi og hefur leitt til skógeyðingar og útrýmingar dýrategunda.

Meðal þeirra dýra sem eru í bráðri hættu vegna ósjálfbærar framleiðslu á olíunni eru órangútan apar og tígrisdýr.

Pálmaræktun er orðin að stórum atvinnuvegi í Indónesíu og Malasíu þar sem sífellt meira er gengið á ósnortna skóga til að skapa ræktarland.

Í nýrri rannsóknarskýrslu frá International Union for the Conservation of Nature (IUCN) segir hins vegar að engin lausn sé falin í að banna eða draga úr framleiðslu pálmaolíu úr þessu.

Það eina sem myndi gerast ef pálmaolían hyrfi skyndilega af markaði væri að menn myndu skipta yfir í enn verri kosti. Sojabaunir, maís og repja þurfi t.d. allt að níu sinnum meira ræktarland en pálminn til að skila sama magni af olíu.

Ræktunin myndi þannig í besta falli flytjast frá Indónesíu og Malasíu til Argentínu og Brasilíu þar sem þyrfti að brenna enn meira skóglendi til að rýma fyrir plantekrum.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að pálmaolía er í dag sirka þriðjungur af allri jurtaolíu sem notaður er í heiminum en notar aðeins 10% af því ræktarlandi sem lagt er undir slíka framleiðslu á heimsvísu.

Talið er að um helmingur jarðarbúa borði pálmaolíu daglega og hún er auk þess notuð í snyrtivörur, hreinlætisvörur og eldsneyti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×