Íslenski boltinn

Blikar völtuðu yfir ÍR á leið sinni í undanúrslitin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Breiðablik var síðasta liðið til þess að tryggja sig í undanúrslit Mjólkurbikars kvenna. Blikar gerðu góða ferð í Breiðholtið þar sem þær unnu stórsigur á ÍR.

Eftir góðar fyrstu tuttugu mínúturnar brustu flóðgáttirnar og ÍR sá aldrei til sólar.

Alexandra Jóhannsdóttir gerði fyrsta markið eftir stoðsendingu Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur. Eyjakonan var svo sjálf mætt mínútu síðar og skilaði boltanum í netið eftir frábæra sendingu frá Ástu Eir Árnadóttur.

Alexandra bætti sínu öðru marki við, og þriðja marki Blika á sex mínútna kafla, með skalla eftir sendingu frá Ástu Eir.

Landsliðskonan Selma Sól Magnúsdóttir bætti fjórða markinu við áður en hálfleikurinn var úti með frábæru skoti fyrir utan teig sem Eva Ýr Helgadóttir var með fingurna í en náði ekki að verja.

Seinni hálfleikurinn byrjaði hræðilega fyrir heimakonur sem fengu mark í andlitið strax á annari mínútu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði örugglega eftir aukaspyrnu inn á teiginn.

Selma Sól bætti við sínu öðru marki á 64. mínútu með skoti sem fór af varnarmanni og í markið.

Guðrún Arnardóttir, sem er nýkomin aftur til Blika úr háskólaboltanum í Bandaríkjanum, skoraði sjöunda markið eftir undirbúning frá Selmu og Agla María Albertsdóttir negldi síðasta naglann í uppbótartíma.

Mjög öruggur 8-0 sigur Blika sem fara í undanúrslit. ÍR er úr leik.

Í pottinum þegar dregið verður til undanúrslita verða: Fylkir, Valur, Stjarnan og Breiðablik. Upplýsingar um markaskorara og úrslit eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×