Sea Shepard hafa lengi haft horn í síðu hvalveiða Íslendinga. Skemmst ber að minnast þess þegar tveir fulltrúar samtakanna sökktu skipunum Hvalur 6 og Hvalur 7 í Reykjavíkurhöfn og skemmdu hvalkjötsvinnsluna í Hvalfirði árið 1986.
Í nýja myndbandinu eru áhorfendur hvattir til að senda töluvpósta á forsætisráðherrann Katrínu Jakobsdóttur, umhverfisráðherrann Guðmund Inga Guðbrandsson og Ferðamálastofu til að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Samtökin vona að íslensk stjórnvöld banni hvalveiðar í kringum landið og leggi þess í stað áherslu á hvalaskoðun.
„Hversu oft langar ykkur að sjá þetta?“ spyrja samtökin í myndbandinu og vísa þar til hvalaverkunarinnar í Hvalfirði.
Greint var frá því á dögunum að sala Hvals hf. hafi dregist saman um 31 prósent á milli ára og hagnaður fyrirtækisins um 515 milljónir króna á sama tímabili.
Ef marka má könnun MMR eru skiptar skoðanir meðal þjóðarinnar á hvalveiðum. Þriðjungur svarenda, eða 34 prósent, var andvígur, þriðjungur, einnig 34 prósent, hlynntir, og um þriðjungur, eða 31 prósent, hvorki hlynntur né andvígur.
Myndband Sea Shepard má sjá hér að neðan.