Erlent

Flugeldageymsla sprakk í Mexíkó

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gríðarstórt svæði er gjörónýtt eftir sprengingarnar.
Gríðarstórt svæði er gjörónýtt eftir sprengingarnar. Vísir/afp
Hið minnsta 24 eru látnir og 40 særðir eftir röð sprenginga í flugeldageymslu í Mexíkó. Stærsta sprenging er sögð hafa orðið eftir að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn voru mættir á vettvang. Eru viðbragðsaðilar því á meðal hinna látnu.

Mikill og svartur reykur steig upp frá geymslunni, sem stóð í borginni Tultepec. Borgin, sem er í um 30 kílómetra fjarlægð frá Mexíkóborg, er stærsti framleiðandi flugelda í landinu. Árlega eru haldnar gríðarstórar flugeldasýningar í borginni - sem hefur áður fengið að kynnast sprengingum sem þessu.

Til að mynda létu 40 manns lífið og 70 særðust í gríðarstórri sprengingu á markaðstorgi borgarinnar árið 2016. Þá dró sprenging, sem varð í borginni fyrr á þessu ári, 7 manns til dauða.

Búið er að ná tökum á eldinum sem breiddist út í kjölfar sprenginga gærdagsins. Hið minnsta fjórar flugeldaverksmiðjur eru sagðar gjörónýtar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×