Sjóðurinn framleiðir límmiða til að auðkenna veitingahús sem styðja vistvæna framleiðslu og bjóða ekki upp á fisk sem framleiddur er í sjókvíaeldi. Á límmiðunum sem sjá má við inngang nokkurra veitingahúsa í Reykjavík, stendur: „Við bjóðum aðeins lax úr sjálfbæru landeldi.“

„Að okkar dómi er um að ræða stærsta umhverfismál á Íslandi í dag,“ segir Ingólfur. Hann segir markmið sjóðsins fyrst og fremst vera að vekja athygli almennings á þeim hættum sem opið sjókvíaeldi valdi náttúru og umhverfi landsins, fyrir lífríki fjarðanna, botndýr, rækju og þorsk og að öll sú mengun sem fari óheft frá eldinu sturtist bara beint í hafið.
Ingólfur segir villta laxinn deyjandi tegund um heim allan. „Ísland er síðasta vígi villta laxins í heiminum. Ef þessi barátta tapast hér þá er bara úti um þessa dýrategund. Það var lax í mörgum löndum á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum en þetta er bara allt horfið. Ef þetta sjókvíaeldi fær að ganga fram mun það sama gerast hér og annars staðar. Ef villti laxastofninn hér blandast einhverjum norskum eldislaxi sem er framandi í íslenskri náttúru þá er skaðinn óafturkræfur,“ segir Ingólfur.
„Það er mikið spurt hvernig lax við erum með. Fólk er að spá í þetta,“ segir Hrefna Sætran sem rekur Grillmarkaðinn og Fiskmarkaðinn. Miðar frá Icelandic Wildlife Fund eru komnir í glugga beggja veitingahúsanna.
Hún segir of snemmt að spyrja um áhrif límmiðanna enda nýkomnir upp en hún segir fólk verða mjög fegið og ánægt að heyra hver uppruni laxins á matseðlinum sé.