Íslenski boltinn

HK/Víkingur vann fallslaginn í Vesturbænum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
HK/Víkingur vann mikilvægan sigur í kvöld
HK/Víkingur vann mikilvægan sigur í kvöld vísir/anton
HK/Víkingur vann mikilvægan sigur í fallslag við KR í lokaleik 9. umferðar Pepsi deildar kvenna í kvöld. Nýliðarnir eru nú fjórum stigum frá fallsæti.

Leikurinn byrjaði frábærlega fyrir heimakonur í KR. Katrín Ómarsdóttir kom þeim yfir strax á 9. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu Hugrúnar Lilju Ólafsdóttur.

Forystan var þó ekki langlíf. Tveimur mínútum seinna brunuðu gestirnir í sókn og náðu í hornspyrnu. Þar var Hildur Antonsdóttir rétt kona á réttum stað og skallaði í netið. Staðan 1-1 eftir 11. mínútur.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og jafnt þegar flautað var til leikhlés.

KR-ingar pressuðu mikið í upphafi seinni hálfleiks en það voru nýliðarnir í HK/Víkingi sem náðu að komast yfir. Margrét Sif Magnúsdóttir skoraði með frábæru skoti fyrir utan teig.

Mínútu síðar var Margrét búin að koma HK/Víkingi í 3-1. Hrikaleg mistök hjá Lilju Dögg Valþórsdóttur í vörn KR, Margrét Sif kemst inn í sendingu hennar, lék á Ingibjörgu Valgeirsdóttur markvörð KR og skoraði í autt marknetið.

Fleiri urðu mörkin ekki, lokatölur 3-1. KR situr sem fastast á botni deildarinnar, HK/Víkingur er í 10. sæti með 10 stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×