Lífið

PewDiePie biðst afsökunar á „ónærgætnu“ gríni um Demi Lovato

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rúmlega 64,5 milljónir fylgjast með ævintýrum hins sænska á Youtube.
Rúmlega 64,5 milljónir fylgjast með ævintýrum hins sænska á Youtube. Vísir/Getty
Stærsta Youtube-stjarna heims, Svíinn Felix Kjellberg, hefur beðist afsökunar á gríni sem hann gerði á kostnað söngkonunnar Demi Lovato. Söngkonan var lögð inn á spítala á dögunum vegna ofneyslu fíkniefna og er nú á batavegi. Kjellberg, sem er hvað þekktastur sem PewDiePie, gantaðist með spítalainnlögnina á ljósmynd sem hann deildi með tugum milljóna fylgjenda sinna. Á myndinni mátti sjá söngkonuna biðja um peninga fyrir hamborgara - sem hún notaði svo til að kaupa fíkniefni.

Fylgjendur PewDiePie brugðust ókvæða við myndbirtingunni og gagnrýndu hetjuna sína harðlega. Að endingu fjarlægði Svíinn myndina og baðst innilegrar afsökunar.

„Eyddi myndinni. Ég meinti ekki neitt með henni og ég áttaði mig ekki fyllilega á aðstæðum,“ sagði PewDiePie. „Ég fatta núna að hún var ónærgætin, fyrirgefiði!“

Youtube-stjarnan ratar reglulega í fréttirnar fyrir óvarleg ummæli sín og umdeildar yfirlýsingar. Svíinn var til að mynda gagnrýndur harðlega í fyrra fyrir það sem talið var vera gyðinga- og kynþáttahatur. Hann hefur þó ætíð verið fljótur að biðjast afsökunar þegar netheimar snúast gegn honum. Alls fylgja rúmlega 64,5 milljónir manna með uppátækjum PewDiePie á Youtube - sem gerir hann að vinsælasta efnisframleiðandanum á myndbandaveitunni.

Miðlar vestanhafs greina frá því að Demi Lovato hafi samþykkt að fara í meðferð við vímuefnafíkn sinni. Hætt hefur verið við alla tónleika hennar og tónleikaferðalagi hennar um Mið- og Suður-Ameríku verið skotið á frest.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.