Íslenski boltinn

Ótrúlegur sigur ÍR | Öll úrslit kvöldsins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Andri Jónasson og félagar unnu góðan sigur í kvöld.
Andri Jónasson og félagar unnu góðan sigur í kvöld. vísir/enir
Mikil dramatík var í leikjum kvöldsins í Inkasso-deild karla en fjögur mörk voru skoruð í uppbótartíma í tveimur af fjórum leikjum kvöldsins.

Í toppslagnum gerðu Víkingur Ólafsvík og HK markalaust jafntefli en leikið var í Ólafsvík. HK enn taplaust á toppnum með 29 stig en Ólafsvík í öðru sæti með 27 stig.

ÍR vann gífurlega mikilvægan sigur á Selfyssingum í fallbaráttuslag, 3-2, en þar var dramatíkin ævintýraleg. Hrvoje Tokic kom Selfoss yfir á átjándu mínútu með sínu fyrsta marki í vínrauða búningnum.

Axel Sigurðarson, lánsmaður frá KR, jafnaði á átjándu mínútu áður en Guðmundur Axel Hilmarsson kom Selfoss aftur yfir á 55. mínútu.

Þannig stóðu leikar allt þangað til í uppbótartíma er Jón Gísli Ström jafnaði á 90. mínútu. Fjörið var ekki búið því Ström skoraði sigurmarkið á 95. mínútu úr vítaspyrnu.

ÍR komið upp úr fallsæti en liðið er í tíunda sæti með þrettán stig. Selfoss er komið í fallsætið, eru nú með ellefu stig eftir leikina þrettán sem búnir eru. Magni á botninum með sex stig.

Fram og Þróttur skildu jöfn, 2-2, í grannaslag. Alex Freyr Elísson kom Fram yfir á 64. mínútu en Viktor Jónsson jafnaði þremur mínútum síðar.

Flestir héldu að Már Ægisson hafði tryggt Fram sigurinn er hann kom þeim í 2-1 á 96. mínútu leiksins en tveimur mínútum síðar jafnaði Daði Bergsson.

Ótrúleg dramatík og lokatölur 2-2. Þróttur er í fimmta sætinu með 20 stig en Fram er sæti neðar með átján stig.

Njarðvík vann svo góðan 1-0 sigur á Leikni í Reykjanesbæ. Eina markið skoraði Birkir Freyr Sigurðsson á 21. mínútu leiksins en Njarðvík er í níunda sæti með 13 stig. Leiknir er í því sjöunda með fjórtán stig.

Öll úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×