Menning

Listahjónin Baldur og Patty standa fyrir sýningunni Skemmtilegs

Stefán Árni Pálsson skrifar
Patty og Baldur við Þingvallavatn í vikunni.
Patty og Baldur við Þingvallavatn í vikunni. mynd/Harriet Selma
Listahjónin Patty Spyrakos og Baldur Helgason standa í sameiningu að sýningunni Skemmtilegs en þar getur á að líta fjölbreytt úrval verka, bæði olíumálverk og teikningar Baldurs og keramikskúlptúra Pattyar.

Sýningin er í Gallery Port og hefur hún göngu sína á laugardaginn og stendur yfir til 9. ágúst. Verkin byggjast á sjónrænni skynjun þeirra á hversdagslegum fyrirbrigðum og óhlutbundnum verum en þau Patty og Baldur sækja innblástur í kvikan skurðpunkt dægurmenningar, félags- og siðfræðistefna, þróunarsálfræði og dulhyggju.

Baldur fæst í verkum sínum við mannveruna og túlkar hana stundum í nær óhlutbundinni naumhyggju en líka í villtri tjástefnu þrástefja. Verk hans vega salt á milli angistar og kímni en undir yfirborði viðfangsefnanna er að finna öflugan straum mennsku og mannúðar í skopmyndastíl.

Handunnir skúlptúrar Pattyar sýna kvenleg form í skoplegum stíl og hráan raunveruleika þess að reyna að viðhalda öflugri sjálfsvitund, samtímis því að þurfa bæði að bjóða mjólk og huggun.

Leitast ekki við gallalausa ímynd

Öll verkin sýna konu okkar daga með brjóstin berskjölduð, þykkar varir og stífa handleggi en þannig er áhersla lögð á hlutverk hennar sem viðfangs. Patty leitast ekki við að móta gallalausa og tímalausa nakta ímynd heldur gætir þess að innsta togstreita endurspeglist í því sem við augum blasir. Yfirborðið er ýmist matt eða glansandi, ólgandi eða slétt og þetta, í bland við afmyndaða andlitsdrættina, dregur ekki dul á öngþveitið.

Verurnar skarta oft slaufum og bólginni kvenlegri hárgreiðslu til þess að sýnast en það undirstrikar einungis að útilokað er að dæma fólk eftir útlitinu einu saman. Patty hefur einnig unnið röð samstæðra verka um vinsæl matvæli í því skyni að rannsaka íslenska umhverfið.

Patty og Baldur unnu verkin á sýningunni í vinnustofu sinni í Chicago þar sem þau búa og starfa. Þetta er önnur sýning Baldurs í Gallery Port og fyrsta sýning Pattyar á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×