Menning

Við erum náttúrlega nördar af guðs náð

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Arngerður leikur á hörpu, Guðbjörg á fiðlu, Lilja Dröfn syngur og Alexandra er á bassa.
Arngerður leikur á hörpu, Guðbjörg á fiðlu, Lilja Dröfn syngur og Alexandra er á bassa.
Hljómsveitin Umbra Ensemble flytur nýja og forna tónlist í eigin útsetningum í Hannesarholti við Grundarstíg í kvöld. „Við gáfum út plötu í vor og erum að fylgja henni eftir en erum líka með suðurevrópska trúbatoratónlist frá 11. og 12. öld sem við höfum verið að rannsaka.“ segir Lilja Dögg Gunnarsdóttir, söngkona í Umbru. „Fólk heldur kannski að trúbadorar þess tíma hafi verið á flakki en þeir virðast meira hafa verið í vinnu við hirð eða hjá yfirstéttarfólki. Þess vegna hafa verkin líklega varðveist,“ bætir hún við til fróðleiks. 

Tónleikarnir bera yfirskriftina Úr myrkrinu. „Við erum vissulega að draga fram forna tónlist en alltaf með það að leiðarljósi að yrkisefnið höfði til fólks í dag og tónmálið sé aðgengilegt. Við útsetjum þessa gömlu tónlist út frá okkar kynslóð, nálgumst þetta pínu eins og popphljómsveit,“ heldur Lilja Dögg áfram og segir mikla vinnu liggja að baki hverju lagi.  „Við vinnum eins og við séum að semja tónlistina þó við séum það ekki. Erum allar jafnvirkar í tónlistarsköpuninni og með brennandi áhuga á fornri tónlist, þó við dönsum á línunni.“

Lilja Dögg segir þær stöllur í Umbru óhræddar við að gefa sér rými til túlkunar, alltaf með það að leiðarljósi að hreyfa við áheyrendum. „Við pælum í textunum og syngjum jafnvel á tungumálum sem eru útdauð,“ segir hún. „Við erum náttúrlega nördar af guðs náð og mjög samstiga í því.“

 Tónleikarnir tilheyra röðinni KÍTÓN Sumar í Hannesarholti. Þeir hefjast klukkan 20. Miðaverð er 3.000 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.