Erlent

Farþegaflugvél brotlenti eftir flugtak í Mexíkó

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmenn á vettvangi þar sem flugvélin brotlenti.
Slökkviliðsmenn á vettvangi þar sem flugvélin brotlenti. Vísir/EPA
Ríkisstjórinn í Durango-ríki í Mexíkó segir að enginn hafi farist þegar farþegaflugvél með 97 farþegum um borð brotlenti skömmu eftir flugtak í dag. Einhverjir eru þó sagðir hafa slasast í slysinu.

Flugvélin var á vegum mexíkóska flugfélagsins Aeroméxico og var hún á leið frá flugvellinum í Guadelupe til Mexíkóborgar. Breska ríkisútvarpið BBC segir að vélin hafi brotlent um tíu kílómetrum frá flugvellinum.

José Aispuro, ríkisstjóri Durango-ríkis, segir að vitni hafi greint frá því að „hvellur“ hafi heyrst áður en vélin hrapaði til jarðar klukkan fjögur síðdegis að staðartíma, klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma. Hún er af gerðinni Embraer 190.

Auk farþeganna var fjögurra manna áhöfn um borð í flugvélinni. Mexíkóskir fjölmiðlar hafa sagt frá því að sést hafi til farþega vélarinnar ganga um í nágrenni brotlendingarstaðarins í leit að hjálp. Allt tiltækt sjúkralið á svæðinu hefur verið kallað út vegna slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×