Körfubolti

Fyrsti sigur U18 strákanna kom gegn Lúxemborg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Liðsmynd af strákunum.
Liðsmynd af strákunum. vísir/fiba
Íslensku strákarnir í körfuboltalandsliðinu skipað leikmönnum átján ára og yngri vann sinn fyrsta leik á EM er liðið vann sigur á Lúxemborg, 82-65.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Lúxemborg var einu stigi yfir eftir fyrsta leikhlutann, 17-16, en Ísland var yfir er gengið var til búningsherbergja í hálfleik, 34-31.

Jafnræðið hélt áfram í þriðja leikhlutann en Ísland leiddi eftir þriðja leikhluta af fjórum, 52-46. Því bjuggust flestir við spennandi fjórða leikhluta en það var ekki raunin.

Strákarnir okkar stigu heldur betur á bensíngjöfina. Þeir áttu 12-2 kafla í upphafi fjórða leikhlutans og setti þar með tóninn fyrir lokasprettinn. Þeir unnu að lokum með sautján stiga mun, 82-65.

Sigvaldi Eggertsson átti stórleik fyrir Ísland. Hann gerði 24 stig og tók þrettán fráköst. Hann var með 31 framlagspunkta. Næstur kom Hilmar Henningsson með 22 stig og nafni hans Pétursson gerði þrettán stig.

Íslenska liðið hafði tapað þremur fyrstu leikjunum sínum fyrir leikinn gegn Lúxemborg og var sigurinn því kærkominn. Liðið spilar við Ísrael á morgun en þeir hafa unnið þrjá af fjórum leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×