Íslenski boltinn

ÍA semur við fyrrum leikmann Liverpool

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nýjasti leikmaður ÍA
Nýjasti leikmaður ÍA Heimasíða ÍA
Hollenski miðjumaðurinn Vincent Weijl hefur samið við knattspyrnudeild ÍA og mun klára tímabilið með liðinu í Inkasso-deildinni. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Skagamanna.

Weijl er 27 ára miðjumaður sem þótti afar efnilegur á sínum yngri árum en hann var samherji landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar hjá AZ Alkmaar þar sem hann kom upp úr unglingaakademíu hollenska liðsins. Núverandi þjálfari ÍA, Jóhannes Karl Guðjónsson, var sömuleiðis samningsbundinn AZ Alkmaar á þessum tíma.

Weijl á landsleiki að baki fyrir yngri landslið Hollands. 17 ára gamall var hann keyptur til enska stórveldisins Liverpool en þar náði hann ekki að brjóta sér leið í aðalliðið. Árið 2010 gekk hann í raðir spænska liðsins Eibar og hefur síðan farið víða en hann hefur leikið í Hong Kong, Danmörku og var síðast á mála hjá PKNP í malasísku úrvalsdeildinni.

„Þetta er fjölhæfur leikmaður sem hefur gert góða hluti hjá mörgum liðum og slík reynsla er mikilvæg fyrir liðið okkar. Við höfum þannig náð að styrkja liðið umtalsvert í félagaskiptaglugganum og við munum nú leggja okkur alla fram um að taka toppsætið í Inkasso-deildinni,“ segir Jóhannes Karl í tilkynningu Skagamanna.

Skagamenn eru í harðri baráttu á toppi Inkasso-deildarinnar og kosta miklu til með það fyrir augum að komast aftur í Pepsi-deildina en ÍA sótti Jeppe Hansen frá Keflvíkingum á dögunum

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×