Innlent

Tvö kynferðisbrotamál til rannsóknar hjá lögreglu í Vestmannaeyjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úr Herjólfsdal um helgina.
Úr Herjólfsdal um helgina. Mynd/Óskar P
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur tvö mál til rannsóknar þar sem grunur er um kynferðisbrot. Bæði málin komu upp í nótt, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum, en síðasta kvöld Þjóðhátíðar var í gær.

Þá leitaði þriðja konan aðstoðar lögreglu vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Hyggst konan leggja fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag voru fjórar líkamsárásir tilkynntar til lögreglu í gærkvöldi og nótt. Tilkynnt var um alvarlegustu árásina um kvöldmatarleytið í gær en árásin átti sér stað aðfararnótt sunnudags. Var þolandinn fluttur til Reykjavíkur vegna innvortis meiðsla. Í tilkynningu lögreglu kemur fram að árásarþoli vildi ekki segja til árásarmannsins en eftirgrennslan leiddi til þess að árásarmaðurinn fannst og var færður til skýrslutöku þar sem hann játaði sök.

Í öðru máli veittist maður að kærustu sinni með höggum og spörkum. Hans var leitað en fannst ekki. Hinar líkamsárásirnar voru minniháttar og eru til rannsóknar. Þá gisti einn fangageymslu eftir nóttina vegna ölvunar og óspekta í Herjólfsdal. Sextán umferðarlagabrot voru einnig kærð um helgina.

„Samráðsfundi með viðbragðsaðilum á þjóðhátíð 2018 var að ljúka og talið er að gestir hafi verið 14.000 til 15.000 talsins. Það var samdóma álit viðbragðsaðila að þrátt fyrir nokkurn vind á síðasta degi hafi gengið vel að aðstoða gesti og almennt hafi skipulag gengið vel,“ segir jafnframt í tilkynningu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×