Erlent

Beittu mótmælendur táragasi og slökktu á internetinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nokkrir mótmælendur særðust í aðgerðum lögreglu í Dhaka, höfuðborg Bangladess, í dag.
Nokkrir mótmælendur særðust í aðgerðum lögreglu í Dhaka, höfuðborg Bangladess, í dag. Vísir/Getty
Þúsundir ungmenna héldu í dag út á götur Dhaka, höfuðborg Bangladess, og hófu að trufla og stöðva umferð í mótmælaskyni, áttunda daginn í röð. Ástæða mótmælanna eru dauðsföll tveggja táninga, drengs og stúlku sem létust þegar rúta ók á þau á ógnarhraða.

Mótmælendur hafa undanfarna daga krafist aukins öryggis í umferðinni og mótmæla meintu skeytingar- og aðgerðarleysi stjórnvalda. Mótmælin hafa meðal annars falist í því að krefja ökumenn í Dhaka um skráningar- og ökuskírteini, en þetta hefur valdið töluverðum töfum á umferð í borginni.

Beittu táragasi og lokuðu fyrir internetið

Lögreglan á svæðinu beitti táragasi á hóp sem hélt til á gatnamótum í miðborg Dhaka. „Þetta voru friðsamleg mótmæli en allt í einu skaut lögreglan dósum fullum af táragasi í átt að okkur, og særði þónokkra,“ hefur Al Jazeera eftir einum mótmælanda, Mohammad Atikur Rahman.

Nokkrir fréttamenn sem reyndu að ná myndefni af vettvangi voru barðir og búnaður þeirra eyðilagður, en talið er að þar hafi verið á ferðinni meðlimir stjórnarflokksins í Bangladess, Awami League.

Auk þess að nota táragas, brugðu yfirvöld á það ráð að skipa fjarskiptafyrirtækjum landsins að slökkva í sólarhring á 3G og 4G internetþjónustu sinni. Talið er að þetta hafi verið tilraun stjórnvalda til að hægja á upplýsingaflæði milli mótmælenda og koma í veg fyrir að fréttir af mótaðgerðum lögreglu breiddust út.

Lögreglan hefur meðal annars beitt táragasi til þess að halda mótmælendum í skefjum.Vísir/Getty
Biðlaði til mótmælenda

Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, biðlaði í dag til mótmælenda um að snúa til síns heima eftir að lögreglan hafði beitt táragasi á stóran hóp mótmælenda.

„Ég bið alla foreldra og forráðamenn um að halda börnunum sínum heima. Þau hafa gert nóg. Lögreglulið okkar hefur nú hafið aðgerðir ná stjórn á götum úti.“

Yfirlýsing forsætisráðherrans kemur degi eftir að lögregla neitaði ásökunum um að hafa beitt táragasi og gúmmíkúlum á mótmælendur annarsstaðar í borginni fyrr í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×