Þrátt fyrir mikla umferð hefur hún að mestu gengið stórslysalaust fyrir sig að frátöldu einu alvarlegu slysi á Suðurlandi í gær.
Einn handtekinn á Selfossi
Fjögur fíkniefnamál hafa komið upp í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi, þar af eitt á Selfossi þar sem einn var handtekinn og grunur lék á að efni væri ætlað til endursölu. Einn gisti fangageymslur á Akureyri í nótt vegna ölvunar en annars hefur allt gengið vel fyrir norðan.Veður hefur verið með besta móti um allt land í dag en það gæti breyst á morgun. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland á morgun og gæti því verið mjög hvasst og jafnvel rigning í brekkusöngnum í Eyjum annað kvöld.
Öflug gæsla og færri fíkniefnamál í Eyjum
Ætlað er að um 11 þúsund manns hafi verið á Þjóðhátíð í gær og hefur þeim farið fjölgandi síðan. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, er ánægð með helgina til þessa. „Nóttin var bara með rólegasta móti, menn muna varla eftir svona rólegri föstudagsnótt,“ segir Páley í samtali við fréttastofu Stöðvar 2. Alls höfðu 13 fíkniefnamál komið inn á borð lögreglunnar í morgun en þau voru 24 á sama tíma í fyrra.
„Við erum með 2-3 fíkniefnaleitarhunda og svo erum við með gæslu sem er mönnuð um 150 manns og ef við erum að telja viðbragðið í dalnum, sem sagt lögregluna og þá sem eru á sjúkbílunum og þá sem sinna sjúkra í tjaldinu og sálargæslan og áfallateymið og allt þetta þá eru þetta yfir 200 manns á vaktinni þegar mest er á nóttunni,“ segir Páley.