Erlent

Áhyggjur af nýjum ebólufaraldri

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fjögur smit hafa verið staðfest en talið er að allt að tuttugu gætu hafa látist í faraldrinum nú þegar.
Fjögur smit hafa verið staðfest en talið er að allt að tuttugu gætu hafa látist í faraldrinum nú þegar. Nordicphotos/AFP
Ómögulegt gæti reynst að bólusetja íbúa Austur-Kongó við ebólu til að hefta útbreiðslu hins nýja ebólufaraldurs sem geisar þar í landi. Þetta sagði Peter Salama, yfirmaður hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), við Reuters í gær.

Fjögur smit hafa verið staðfest en talið er að allt að tuttugu gætu hafa látist í faraldrinum nú þegar. Að sögn Salama hefur reynst erfitt að bera kennsl á hvaða afbrigði ebólu er um að ræða. Hvort það sé Zaire-, Súdans- eða Bundibugyo-ebóla. 

Salama sagði að ef um Zaire-ebólu væri að ræða gæti verið hægt að nota sama bóluefni og var notað þegar síðasti faraldur geisaði. Það bóluefni er eina ebólu-bóluefnið sem hefur staðist þriðja stigs prófanir. 

„Ef ekki þá þurfum við að skoða flóknari valmöguleika, jafnvel munum við ekki hafa neina möguleika í þeirri stöðu.“

Í gær var tilraunastofa sett upp í borginni Beni í norðausturhluta landsins, stutt frá staðnum þar sem faraldurinn geisar. Yfirvöld í Austur-Kongó lýstu því yfir á miðvikudag að um faraldur væri að ræða. Á þriðjudag var því hins vegar lýst yfir að faraldrinum, sem geisað hafði í norðvesturhluta landsins og kostað 33 lífið, væri lokið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×