Innlent

Harka leysir af samráð í pólitík

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Minnihlutinn í borgarstjórn hefur beitt sér af hörku þann stutta tíma sem liðinn er af kjörtímabilinu.
Minnihlutinn í borgarstjórn hefur beitt sér af hörku þann stutta tíma sem liðinn er af kjörtímabilinu. Fréttablaðið/Ernir
„Það er svona aukin sundrung sem hefur verið að færast í stjórnmál á Vesturlöndum á liðnum árum og þessari auknu sundrungu hefur fylgt aukin harka í hinni pólitísku umræðu frá því sem verið hafði til skamms tíma,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, aðspurður um þá stemningu sem ríkt hefur í borgarstjórn frá kosningum.

Á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá því að ný borgarstjórn tók til starfa hefur verið heldur stormasamara í ráðhúsinu en borgar­búar hafa átt að venjast á undanförnum árum.

Eiríkur segir mögulegar skýringar að finna annars vegar í almennri þróun stjórnmála á Vesturlöndum og hins vegar megi einnig finna séríslenskar skýringar.

„Í þeim stéttastjórnmálum sem voru framan af tuttugustu öldinni var oft gríðarleg harka í pólitíkinni og þá var líka gríðarleg harka í póli­tík á Íslandi. Svo gerist það svona á síðustu áratugum að það fer að verða meira samráð víða í stjórnmálum og þessi ofboðslegu átök sem verið höfðu fara minnkandi og það gerist líka hér á Íslandi. Síðan færist þessi harka af stað á nýjan leik.“

Eiríkur leggur áherslu á að þegar við tölum um aukna hörku núna, megi ekki skilja það sem svo að slíkt hafi ekki sést áður. „Við erum hins vegar að koma úr löngu tímabili minni átaka.“

Um hinar íslensku aðstæður segir Eiríkur að pólitíkin í borgarstjórnum undanfarinna kjörtímabila hafi gengið meira út á samráð minnihluta og meirihluta. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í minnihluta lögðu margir hverjir upp með það að reyna að koma sínum málum í gegn með samráði við meirihlutann frekar en að vera í stöðugum átökum sem felur þá í sér að koma færri málum í gegn,“ segir Eiríkur og segir þetta hafa verið meðvitaða pólitík hinna frjálslyndari borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og mörgu leyti áhrifa­ríka í því að koma málum í gegn en síður áhrifaríka í því að sýna fram á eða skerpa á einhvers konar sérstöðu andstöðunnar fyrir kosningar.

„Svo gerist það að þessari stjórnar­andstöðu er hafnað af Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu kosningar og það er stillt upp annars konar liði sem greinilega hefur hafnað þessari aðferð og hefur farið miklu nær þeirri aðferð í stjórnarandstöðu sem til dæmis Davíð Oddsson lýsti, það er að segja að fara í öll mál og gera allt tortryggilegt. Og það er sú breyting sem við erum að verða vitni að núna í borgarstjórn,“ segir Eiríkur.

adalheidur@frettabladid.is


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×