Menning

Eins og heimkoma eftir öll þessi ár

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Ég er alltaf hamingjusamur þegar ég fæ ástæðu til að fara norður, segir Kristján.
Ég er alltaf hamingjusamur þegar ég fæ ástæðu til að fara norður, segir Kristján. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Kristján Jóhannsson syngur á Berjadögum á Ólafsfirði, en þeir hefjast í dag, fimmtudaginn 16. ágúst, og þeim lýkur sunnudaginn 19. ágúst. Berjadagar eru nú haldnir í tuttugasta sinn og afmælisþemað er íslenska sönglagið.

Kristján kemur fram á hátíðartónleikum í Ólafsfjarðarkirkju föstudagskvöldið 17. ágúst ásamt Bjarna Frímanni Bjarnasyni sem leikur á píanó, Ólöfu Sigursveinsdóttur sellóleikara, Eyjólfi Eyjólfssyni tenórsöngvara og Veru Panitch fiðluleikara.

Gleðin við völd

„Ég held að ég hafi ekki sungið konsert í kirkjunni í ein fjörutíu ár. Nú er komið að því og það er yndislegt. Þetta er eins og heimkoma eftir öll þessi ár að fá að syngja þarna aftur. Nú verður gleðin við völd. Ég er alltaf hamingjusamur þegar ég fæ ástæðu til að fara norður,“ segir Kristján.

„Ég mun syngja nánast alfarið íslensk lög en ætla kannski að gefa þeim eina ítalska aríu eða svo. Það eru ansi mörg ár síðan ég hef gert prógramm bara með íslenskum lögum. Ég hef sennilega ekki sinnt íslenskum sönglögum nægilega í þessi fjörutíu ár. Ég mun syngja mestmegnis einsöng en síðan er þarna einn dúett, Sólsetursljóð eftir séra Bjarna Þorsteinsson prest á Siglufirði, sem ég syng með ungum söngvara, Eyjólfi Eyjólfssyni.“



Vinnur með amerísku kompaníi

Það er ýmislegt annað á dagskrá hjá Kristjáni.

„Í tvö ár hef ég verið að vinna í amerísku kompaníi, La Musica Lirica, og Brygida Bziukiewicz, söngkona og prófessor við háskólann í Michigan, er þar í forsvari. La Musica Lirica heldur árlega sumarnámskeið fyrir unga óperusöngvara á Norður-Ítalíu. Ég hef að hluta til umsjón með áheyrnarprufum fyrir söngvara og vel þá í verkefni og síðan undirbý ég aðalsöngvarana sönglega fyrir sviðið. Við fluttum þrjár óperur á Ítalíu í sumar og verðum með þrjár næsta sumar, Rigoletto, Gianni Schicchi og Ástardrykkinn. Þetta eru óperur sem ég þekki auðvitað mjög vel. Ég vona að ég fái leyfi til að vera með áheyrnarpróf fyrir íslenska söngvara í vetur hér á landi, þannig að þeir þurfi ekki að fljúga út til að fara í þessi próf. Tveir af mínum bestu nemendum, Gunnar Björn Jónsson og Aðalsteinn Már Ólafsson, tóku þátt í námskeiðinu í sumar og ég var afskaplega stoltur af þeim. Þeir stóðu sig frábærlega vel. Mér væri ánægja af að fara með fleiri íslenska söngvara þangað næsta sumar. Ég hef unun af að vinna með ungu fólki, það viðheldur lífsgleði minni.“



Í félagsskap með Callas og Pavarotti

Þess má að lokum geta að geisladiskur með upptöku á óperunni Aidu frá árinu 1992 þar sem Kristján syngur ásamt Mariu Chiara og Juan Pons, og fleirum, hefur selst í rúmlega fimm milljónum eintaka. „Þetta er óskaplega gaman þótt ég fái ekki krónu fyrir þetta!“ segir Kristján.

Á safndiskum The Best Opera Arias sem Halidon gefur út er að finna upptöku á söng Kristjáns á aríunni Celeste Aida. Söngvararnir á disknum eru meðal þeirra frægustu í óperusögunni og má þar nefna Mariu Callas, Renötu Tebaldi, Luciano Pavarotti og Guiseppe di Stefano.

„Það kitlaði mig mikið að frétta að ég væri í svo góðum félagsskap,“ segir Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×