Íslenski boltinn

Engin bikarþynna í Stjörnunni og Breiðablik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Berglind skoraði í kvöld eins og svo oft áður.
Berglind skoraði í kvöld eins og svo oft áður. vísir/ernir
Það var lítil bikarþynnka í Stjörnunni og Breiðablik sem kláruðu sína leiki í Pepsi-deild kvenna nokkuð auðveldlega í kvöld. Mörkunum rigndi í Garðabæ en Breiðablik lét tvö nægja.

Stjarnan, sem tapaði úrslitaleiknum í Mjólkurbikarnum á föstudaginn, rústaði HK/Víking 7-1. Guðmunda Brynja Óladóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoruðu tvö mörk hver.

HK/Víkingur lenti 4-0 undir en Arna Eiríksdóttir minnkaði muninn í 4-1. Birna Jóhannsdóttir skoraði sjöunda og síðasta mark Stjörnunnar á 86. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður fjórum mínútum áður.

Stjarnan er í þriðja sætinu með 28 stig en HK/Víkingur er í sjöunda sætinu með þrettán stig. Nýliðarnir eru þremur stigum frá fallsæti.

Bikarmeistarar Breiðabliks unnu 2-0 sigur á KR. Hildur Antonsdóttir og Berglind Björg Þorvalsdótir skoruðu mörkin á tveggja mínútna kafla í síðari hálfleik.

Blikarnir á toppnum með 37 stig, tveimur á undan Þór/KA. KR er í áttunda sætinu, tveimur stigum frá falli.

Úrslit og markaskorarar eru fengnir af úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×