Íslenski boltinn

Harpa með slitið krossband: „Heyrði smellinn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Harpa í leik með Stjörnunni.
Harpa í leik með Stjörnunni. vísir/daníel
Harpa Þorsteinsdóttir, framherji íslenska landsliðsins og Stjörnunnar, er með slitið krossband. Þetta staðfesti hún við Vísi nú í kvöld.

Harpa var borin af velli í úrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks á dögunum í Mjólkurbikarnum. Hún fór í myndatöku í dag þar sem þetta kom í ljós en var þetta mikið sjokk?

„Já og nei, ég fann strax að þetta væri alvarlegt. Ég var búin undir það versta. Ég heyrði bara smell,” sagði Harpa er Vísir náði tali af henni í hálfleik í leik Stjörnunnar og HK/Víkings í Pepsi-deild kvenna.

„Ég fór í myndatöku í dag en ég hef ekkert talað við lækninn um tímaramma. Nú er bara að ná mér góðri til þess að ég gati farið sem fyrst í aðgerð. Það er skref númer eitt.”

Stórir leikir eru framundan hjá íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta. Liðið getur tryggt sér á HM með sigri gegn Þýskalandi í september en Harpa segir að það sé alltaf leiðinlegt að lenda í svona meiðslum, sama á hvaða tímapunkti.

„Auðvitað er spennandi ár framundan en það er bara alltaf leiðinlegt að enda í svona meiðslum. Ég er ekkert búin að hugsa út í framhaldið. Fyrst og fremst ætla ég bara að koma mér í gegnum þessi meiðsli,” sagði Harpa að lokum.


Tengdar fréttir

Harpa borin af velli

Bera þurfti Hörpu Þorsteinsdóttur, leikmann Stjörnunnar, af velli í seinni hálfleik í bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks sem nú stendur yfir.

Harpa líklega ekki með gegn Þýskalandi

Harpa Þorsteinsdóttir verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum mikilvægu gegn Þýskalandi og Tékklandi í byrjun september. Harpa meiddist á hné í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×