Íslenski boltinn

Brynjar tryggði HK mikilvægan sigur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Brynjar í leik með HK síðasta sumar en hann skoraði mikilvægt mark í dag.
Brynjar í leik með HK síðasta sumar en hann skoraði mikilvægt mark í dag. vísir/vilhelm
Brynjar Jónasson tryggði HK afar dýrmætan sigur á Njarðvík á heimavelli í Inkasso-deild karla í kvöld. Lokatölur 1-0.

Brynjar skoraði eina mark leiksins á 31. mínútu leiksins og vörn og markvarsla HK hélt út leikinn. Hún hefur verið afar sterk í allt sumar.

Eftir leikinn er HK því á toppi Inkasso-deildarinnar með 42 stig, tveimur stigum á undan ÍA sem á leik til góða.

HK á eftir að spila við Fram, ÍR og Hauka í síðustu þremur leikjum deildarinnar en það stefnir allt í að það verði tvö Kópavogslið í Pepsi-deild karla á næstu leiktíð.

Njarðvík er í áttunda sætinu með átján stig, þremur stigum á undan Selfyssingum sem eru í fallsæti. Njarðvík á eftir að spila við Magna, Víking Ólafsvík og áðurnefnda Selfyssinga.

Úrslit eru fengin frá Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×