Erlent

Leiðtogi Donetsk ráðinn af dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Alaxender Zakharchenko, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Donetsk í austurhluta Úkraínu.
Alaxender Zakharchenko, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Donetsk í austurhluta Úkraínu. Vísir/EPA
Alaxender Zakharchenko, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Donetsk í austurhluta Úkraínu, var ráðinn af dögum í sprengjuárás á kaffihúsi í dag. Uppreisnarmenn segjast hafa handtekið Úkraínumenn nærri sem grunaðir eru um að hafa komið að árásinni. Zakarchenko bar titilinn forsætisráðherra lýðveldis Donetsk.

Fjármálaráðherra Donetsk, Alexander Timofeyev, er sagður hafa særst í árásinni.

Utanríkisráðuneyti Rússlands segir að grunur falli á ríkisstjórn Úkraínu í Kænugarði og kalla árásina „hryðjuverk“. Maria Zakharova, talskona ráðuneytisins, sagði ríkisstjórn Úkraínu vera bak við sprenginguna og að „stríðsflokkurinn“ í Kænugarði hefði svikið loforð sín um frið og þess í stað sæst á blóðsúthellingar.



Rússar standa við bakið á aðskilnaðarsinnunum, sem hertóku stór svæði í Úkraínu árið 2014. Rúmlega tíu þúsund manns hafa fallið í átökunum síðan og rúmlega ein og hálf milljón manna hafa þurft að flýja heimili sín.

Úkraínumenn segja mögulegt að andstæðingar Zakharchenko meðal aðskilnaðarsinna hafi fellt hann, eða hann hafi verið felldur af Rússum. Ríkisstjórn Úkraínu hefur haldið því fram að Rússar hafi fellt aðskilnaðarsinna sem neita að framfylgja skipunum þeirra.



Fjölmiðlar í Úkraínu segja að um bílasprengju hafi verið að ræða en Zakharchenko lifði af slíka árás í ágúst 2014. Nokkrir leiðtogar aðskilnaðarsinna hafa verið ráðnir af dögum á undanförnum árum. Í október 2016 dó Arsen Pavlov þegar sprengja sprakk í lyftu í húsi hans. Þá dó Mikhail Tolstykh í febrúar í fyrra þegar eldflaug var skotið inn í skrifstofu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×