Erlent

Leystu ráðgátuna um draugaskipið í Mjanmar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skipið er risavaxið en var algjörlega mannlaust.
Skipið er risavaxið en var algjörlega mannlaust. Mynd/Lögreglan í Yangon
Yfirvöld í Mjanmar hafa komist til botns í ráðgátunni um „draugaskipið“ sem rak á strendur landsins í gær. BBC greinir frá.

Skipið ber nafnið Sam Ratulangi PB 1600 og er skráð í Indónesíu en sjómenn komu fyrst auga á skipið undan ströndum Yangon, stærstu borgar landsins, á dögunum. Skipið reyndist galtómt og enginn sjómaður var um borð. Vakti málið mikla furðu yfirvalda.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að skipið var á vegum dráttarbátsins Independence, sem átti að koma því í verksmiðju í Bangladesh. Í verksmiðjunni átti að búta skipið niður í brotajárn.

Dráttarbáturinn fannst um 80 kílómetra utan af ströndum Mjanmar og staðfestu indónesískir skipverjar þar grunsemdir yfirvalda. Þeir sögðust hafa lagt af stað með skipið þann 13. ágúst síðastliðinn en dráttarvírarnir hafi slitnað í óveðri. Skipverjarnir ákvaðu því að yfirgefa skipið, sem dúkkaði svo óvænt upp í gær.

Síðasta staðsetning skipsins var skráð í Taívan árið 2009. Yfirvöld í Mjanmar halda rannsókn sinni áfram, að því er fram kemur í frétt BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×