Erlent

Nawaz Sharif sleppt úr fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan.
Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan. AP/Anjum Naveed
Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan, verður sleppt úr fangelsi einungis tveimur mánuðum eftir að hann byrjaði að afplána tíu ára fangelsisdóm fyrir spillingu. Þetta er niðurstaða áfrýjunardómstóls í Pakistan en Sharif var dæmdur fyrir spillingu í tengslum við fjórar lúxusíbúðir sem hann og fjölskylda hans á í London. Dóttir hans og tengdasonur voru einnig dæmd í fangelsi, hún í sjö ár og hann eitt, og verður þeim sömuleiðis sleppt.

Þeim verður þó einungis sleppt tímabundið og þá gegn tryggingu en Hæstiréttur Pakistan á enn eftiri að taka málið fyrir og liggur ekki fyrir hvenær það verður.

Sharif hefur ávalt neitað sök og hefur sagt ásakanirnar gegn sér byggja á pólitík. Áfrýjunardómstóllinn sagði saksóknurum ekki hafa tekist að sanna að Sharif ætti áðurnefndar íbúðir.

Stuðningsmenn Sharif segja að pólitískir andstæðingar hans og þá sérstaklega herinn hafi séð til þess að hann hafi verið sakfelldur. Hins vegar hefur Imran Khan, nýr forsætisráðherra Pakistan lofað sakfellinguna sem sigur gegn spillingu í ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×