Erlent

Fyrrverandi forseti Argentínu ákærð fyrir spillingu

Andri Eysteinsson skrifar
Cristina Kirchner er sökuð um mútuþægni á valdatíð hennar og á valdatíð eiginmanns hennar.
Cristina Kirchner er sökuð um mútuþægni á valdatíð hennar og á valdatíð eiginmanns hennar. Vísir/AP
Fyrrverandi forseti Argentínu, Cristina Kirchner, sem tók við embætti af eiginmanni sínum Néstor Kirchner árið 2007 og var við völd til ársins 2015 hefur verið ákærð vegna spillingar. AP greinir frá.

Gefin var út handtökuskipun á forsetann fyrrverandi og yfirvöldum heimilað að gera meira en 100 milljónir dala af fé Kirchner upptæka. Kirchner er sökuð um spillingu og mun hafa tekið við mútum frá fyrirtækjum í skiptum fyrir samninga við ríkið.

Forsetinn fyrrverandi sem í dag er þingkona í öldungadeild argentínska þingsins neitar sök og segir dómarann, Claudio Bonabio, sem fyrirskipaði ákæruna vinna fyrir stjórn hins íhaldssama forseta Mauricio Macri.

Staða Kirchner sem öldungadeildarþingmaður hefur í för með sér að ekki er hægt að sakfella hana nema að tveir þriðju hlutar öldungadeildarinnar heimili það.

Kirchner sakar Macri um að reyna að dreifa athygli Argentínumanna frá bágu efnahagsástandi landsins. Frá embættistöku Macri 2015 hefur Kirchner ítrekað verið sökuð um fjárdrátt, peningaþvætti og aðra hvítflibbaglæpi, einnig hefur dómarinn Bonabio sakað hana um landráð í tengslum við hryðjuverkaárás í landinu árið 1994.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×