Íslenski boltinn

Óli Jó: Held að Stjarnan vinni leikinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, segir að það lið sem þori að taka meiri áhættu í bikarúrslitaleiknum á morgun muni standa uppi sem sigurvegari.

Stjarnan og Breiðablik mætast annað kvöld í úrslitaleik Mjólkurbikarsins en leikið verður í flóðljósum á Laugardalsvelli.

„Þetta eru tvö stórkostlegt fótboltalið sem eru vel mönnuð í öllum stöðum og eru með góða þjálfara,” sagði Ólafur í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Í svona úrslitaleikjum nálgast menn oftast leikinn með að ætla sjá aðeins hvað hinn aðilinn gerir. Ég held að það lið sem þori að taka frumkvæðið vinni leikinn.”

„Þetta er stærsti leikur sumarsins. Það vilja allir taka þátt í þessum leik. Þetta er ein af stærri stundunum í íslenskum fótbolta.”

Ólafur segir að liðin spili bæði svipaðan fótbolta, liggi til baka og séu snögg að refsa öðrum liðum með sínum skyndisóknum.

„Þessi lið spila svipaðan fótbolta; þau liggja til baka og beita skyndisóknum. Stjörnumenn eru líkamlega sterkari og það er mikill munur þar á milli. Það lið sem þorir aðeins að fara út úr sínu á meiri möguleika,” en hvaða lið vinnur?

„Ég tippa á Stjörnuna. Ég held að Stjarnan vinni leikinn. Þetta eru tvö frábær lið og spila á Laugardalsvelli. Þetta er geggjuð stund,” sem glensaðist að lokum um afhverju hann væri ekki að fara spila á morgun.

„Það er stór dagur í fjölskyldunni og það er ástæðan fyrir því að við ákváðum að fara ekki í þennan leik,” sagði Ólafur og glotti við tönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×