Kapparnir eru í lokaundirbúningi fyrir risa bardagakvöldið UFC 229 sem fram fer í Las Vegas aðfaranótt sunnudags og er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Þar markar Conor endurkomu sína í búrið.
Írinn mætti með kornungan son sinn á æfinguna og var mikið fagnað á meðan að hann skellti æfingafélaga sínum nokkrum sinnum í dýnuna. Hann greip svo hljóðnemann og lofaði því að reyna að rota Khabib frá fyrstu sekúndu.
Eins og með flesta andstæðinga Conors þurfti Khabib að æfa undir stanslausu bauli og háðsglósum úr salnum þar sem að flestir á laugardagsnóttina verða á bandi tvöfalda heimsmeistarans. Khabib lét það ekki hafa nein áhrif á sig.
„Ég hef aldrei æft við svona aðstæður og fyrir framan svona marga. Ég elska þetta. Þegar ég kemst í búrið verð ég einn með þessum kjúkling. Allt þetta fólk hérna á eftir að elska mig eftir bardagann og halda kjafti,“ sagði Khabib Nurmagodenov eftir æfinguna.
Stutt myndband frá því allra helsta á æfingu gærkvöldsins má sjá hér að neðan.