Fréttablaðið vitnar í útreikninga sem það segir byggða á kröfugerð samninganefndar SGS sem var kynnt fyrir viku. Í henni er meðal annars farið fram á að lágmarkslaun hækki í 425 þúsund krónur við lok þriggja ára samningstíma.
Gangi kröfur um krónutöluhækkanir og styttri vinnuviku án launaskerðinga gætu laun sumra stétta tvöfaldast. Í sumum tilfellum gæti launakostnaður fyrirtækja hækkað um 150% samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins. Blaðið hefur eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að kröfurnar gangi alltof langt og að afleiðingarnar verði vaxandi verðbólga, veikari króna og minni kaupmáttur launa.
„Menn geta reiknað sig algerlega upp til tunglsins ef þeir vilja en menn skulu þá líka ekki búa til forsendur sem eru allt aðrar en þær sem við erum að tala um,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins í samtali við Vísi.
Ekki hugmyndin að fólk vinni áfram jafnmikið
Hann hafnar forsendum sem virðast liggja að baki útreikningum Fréttablaðsins og segir að verið sé að mála skrattann á vegginn með þeim. Þar virðist gert ráð fyrir að félagar sambandsins vinni áfram sama fjölda vinnustunda þrátt fyrir að vinnuvikan verði stytt og fái þá greidda fleiri yfirvinnutíma.„Við erum ekki að fara fram á styttingu vinnuvikunnar til þess að menn bara bæti við sig yfirvinnu. Það er ekki það sem við erum að tala um. Við erum að tala um að stytta vinnuvikuna raunverulega. Við erum ekki að tala um að stytta vinnuvikuna til þess að það sem menn vinna í dag sé greitt sem yfirvinna ,“ segir Björn.
Markmið sambandsins sé að gera félagsmönnum sínum kleift að lifa af dagvinnulaunum sínum með því að knýja fram launahækkanir. Björn segist telja kröfur sambandsins sanngjarnar.
Starfsgreinasambandið hefur ekki lagt mat á kostnað fyrirtækja við að fallast á kröfur þess. Björn segist telja að fyrirtækin geti staðið undir kröfunum jafnvel þó að launahækkanir og stytting vinnuvikunnar komi til með að kosta þau.
„Við teljum að þetta sé innan þeirra marka sem fyrirtækin geta borið,“ segir Björn.