Erlent

Engin tilkynning um skotárás í New York um helgina

Atli Ísleifsson skrifar
Á síðasta ári voru 292 manns myrtir í New York.
Á síðasta ári voru 292 manns myrtir í New York. Getty/Gary Hershorn
Helgin var óvenjulega róleg hjá lögreglunni í New York í Bandaríkjunum þar sem engin tilkynning um skotárás eða morð kom inn á borð. Þetta er í fyrsta sinn í aldarfjórðung sem þetta gerist.

„Þetta er í fyrsta sinn í áratugi og staðreynd sem ekki bara lögreglan í New York heldur allir íbúar borgarinnar geta verið stoltir af,“ segir í James O'Neill hjá lögreglunni.

Síðasta skotárásin fyrir helgi var á fimmtudagsmorgni þegar 25 ára karlmaður var skotinn í magann í Brooklyn. Tilkynning barst svo um skotárás síðdegis í gær þegar maður var skotinn í hverfinu Bronx.

292 myrtir á síðasta ári

Á síðasta ári voru 292 manns myrtir í New York þar sem íbúar telja um 8,5 milljónir. Það var lægsti fjöldinn frá sjöunda áratug síðustu aldar.

Þrátt fyrir að síðastliðin helgi hafi verið róleg stefnir í að morðum í New York muni aftur fjölga í ár, samanborið við síðasta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×