Erlent

Ljósmóðirin Hauwa Liman tekin af lífi

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 24 ára Hauwa Mohammed Liman starfaði á sjúkrahúsi sem nýtur stuðnings Alþjóða Rauða krossins.
Hin 24 ára Hauwa Mohammed Liman starfaði á sjúkrahúsi sem nýtur stuðnings Alþjóða Rauða krossins. Mynd/Twitter/Peter Maurer
Nígeríska ljósmóðirin Hauwa Liman, sem var rænt úr flóttamannabúðum í Borno-héraði í mars, hefur verið tekin af lífi. Myndskeið af aftökunni hefur verið sent á nígeríska fjölmiðla og hafa nígerísk stjórnvöld staðfest fréttirnar.

Hin 24 ára Hauwa Mohammed Liman starfaði á sjúkrahúsi sem nýtur stuðnings Alþjóða Rauða krossins. Henni var rænt ásamt tveimur starfsmönnum til viðbótar, ljósmóðurinni Saifura Hussaini Ahmed Khorsa og hjúkrunarfræðingnum Alice. Fréttir bárust svo af því fyrir hálfum mánuði að Saifura hafi verið tekin af lífi.

Talið er að klofningshópur úr hryðjuverkasamtökunum Boko Haram beri ábyrgð á ránunum og aftökunum.

Yves Daccord, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins, fjallaði um mál kvennanna í erindi sínu í Háskóla Íslands í gær, en fréttir af aftöku Hauwu Liman bárust í gærkvöldi. Í erindi sínu minntist Daccord þess að tíu ár væru í ár liðin frá því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun sem segir beitingu kynferðisofbeldis í hernaði vera stríðsglæp.

Nígerísk stjórnvöld staðfestu í gærkvöldi að Hauwa hafi verið ráðin af dögum og að stjórnvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga lífi hennar. Nígeríustjórn hafði sætt nokkurri gagnrýni vegna málsins og verið sökuð um aðgerðaleysi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×