Innlent

Vantraust og brotthvarf úr framkvæmdaráði Pírata

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sindri Viborg hefur stigið til hliðar sem formaður framkvæmdaráðs Pírata.
Sindri Viborg hefur stigið til hliðar sem formaður framkvæmdaráðs Pírata. Fréttablaðið/Stefán
Fjórir af tíu fulltrúum Pírata í framkvæmdaráði flokksins hafa sagt sig úr ráðinu aðeins tveimur vikum eftir kjör á aðalfundi Pírata sem fram fór á Hótel Selfossi síðustu helgina í september. Þetta herma heimildir Vísis.

Meðal þeirra sem hverfa úr ráðinu er formaðurinn Sindri Viborg sem mun sömuleiðis hafa sagt sig úr flokknum.

Fólk innan aðildarfélagsins Píratar í Reykjavík mun hafa líst yfir vantrausti, nánar tiltekið trúnaðarbresti, á Sindra en ein ástæðan fyrir vantraustinu er ráðning nýs starfsmanns í hlutastarfi. Töldu sumir að lög Pírata hefðu verið brotin við ráðninguna þar sem starfið var ekki auglýst.

Boðað hefur verið til fundar hjá framkvæmdaráðinu á miðvikudagskvöld til að ræða þann vanda sem upp er kominn. Auk þess hefur verið boðað til félagsfundar á mánudaginn eftir viku, með löglega bundnum fyrirvara. 

Hlutverk framkvæmdaráðs Pírata er að annast almenna stjórn og rekstur félagsins. Hinir sem hverfa úr framkvæmdaráðinu eru Halldór Auðar Svansson, Jón Gunnar Borgþórsson og Valgeir Helgi Bergþórsson.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×