Erlent

Sprengjuárásin í Manchester: Starfsmenn FBI uppvísir að misferli vegna upplýsinga sem lekið var í NY-Times

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stúlka í Manchester þann 22. maí 2018, ári eftir að árásin var framin.
Stúlka í Manchester þann 22. maí 2018, ári eftir að árásin var framin. Getty/Leon Neal
Fjórir starfsmenn Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, hafa orðið uppvísir að misferli við meðhöndlun háleynilegra gagna í tengslum við hryðjuverkaárásina í Manchester í fyrra. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á vegum bandaríska dómsmálaráðuneytisins.

Myndum og öðrum sönnungargögnum, sem breska lögreglan hafði safnað saman í kjölfar árásarinnar, var lekið í bandaríska fjölmiðla. Bandaríska dagblaðið New York Times birti fyrst umræddar myndir sem sýndi m.a. brak úr sprengingunni og blóð úr fórnarlömbum árásarinnar. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lýsti yfir óánægju sinni við Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna málsins á sínum tíma.

Sjá einnig: Lögregla í Manchester lokar á Bandaríkin

Greint er frá niðurstöðu rannsóknar bandaríska dómsmálaráðuneytisins á gagnalekanum á vef breska dagblaðsins The Guardian. Þar kemur fram enn sé ekki ljóst hver hafi komið umræddum gögnum í hendur blaðamanna New York Times. Fjórir starfsmenn FBI hafa þó gerst sekir um misferli við meðhöndlun gagnanna, en þvertaka allir fyrir að hafa sent dagblaðinu umræddar upplýsingar.

Tveir starfsmannanna fjögurra áframsendu tölvupóst með gögnunum, sem um þúsund starfsmenn FBI fengu sendan frá breskum lögregluyfirvöldum, á persónuleg tölvupóstföng sín. Þriðji starfsmaðurinn áframsendi tölvupóstinn til embættismanns hjá erlendum lögregluyfirvöldum en hafði ekki heimild til slíkrar sendingar. Sá fjórði gerði tilraun til að áframsenda póstinn á persónulegt netfang sitt.

Þá kemur einnig fram í rannsókninni að gögnin hafi verið send fjölmörgum bandarískum stofnunum til viðbótar við FBI. Því sé ekki fullvíst að alríkislögreglan hafi lekið umræddum upplýsingum.

23 létust og 59 særðust í sjálfsmorðssprengjuárásinni sem gerð var á Manchester Arena skömmu eftir tónleika bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande þann 22. maí í fyrra.  Fjölmörg börn voru á meðal hinna látnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×