Fertugasta og þriðja þingi ASÍ lauk í gær og urðu miklar breytingar á forystu sambandsins þegar nýr forseti og tveir nýir varaforsetar tóku við. Vilhjálmur Birgisson, nýkjörinn 1. varaforseti ASÍ, segir að með þessari róttæku breytingu á forystunni sé verið að svara kalli félagsmanna. Hann segir ljóst að stjórnvöld þurfi að axla gríðarlega ábyrgð í komandi kjarabaráttu svo samningar náist.
„Stjórnvöld hafa því miður tekið stjóran hluta þess ávinnings af launahækkunum sem við höfum verið að koma með á liðnum árum. Þá í formi skerðingar á barna- og vaxtabótum. Svo erum við að horfa hér á vaxtaumhverfið sem heimilin þurfa að þola," segir hann.
Hann segir mörg verkefni framundan, þjóðarátak þurfi í húsnæðismálum og létta skattbyrði á þeim tekjulægstu. Sem er í takt við þær kröfur sem forysta VR og Eflingar hafa sett fram.
Heldur þú að baráttan verði hörð?
„Hún verður glerhörð og ég vona það. Það er ábyrgð okkar í verkalýðshreyfingunni, og ekki bara okkar, heldur líka Samtaka atvinnulífsins og síðast en ekki síst stjórnvalda að finna laust þannig að við getum komist hjá því að henda í mjög hörðum átökum á íslenskum vinnumarkaði," segir hann.

