Golf

Guðrún Brá í toppsætinu á LET-móti í Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Mynd/Golfsamband Íslands
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi 2018, er að gera góða hluti á lokamóti LET Access mótaraðarinnar í golfi. Mótaröðin er næststerkasta atvinnumótaröðin í Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki.

Mótið fer fram í Barcelona á Spáni hjá Real Club de Golf El Prat.

Guðrún Brá hefur leikið tvo fyrstu hringina á tveimur höggum undir pari og deilir eins og staðan er núna efsta sætinu með tveimur öðrum kylfingum eða þeim Emmu Nilsson og Anais Meyssonnier.

Guðrún Brá lék annan hringinn á pari en var á tveimur höggum undir pari í gær. Guðrún Brá fékk fjóra fugla og fjóra skolla í dag.

Alls hefur Guðrún Brá leikið á 11 mótum á LET Access mótaröðinni á þessu tímabili. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á fimm þeirra og er hún í 71. sæti á peningalista mótaraðarinnar.

Guðrún Brá mun leika á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina í Marokkó 16.-20. desember. Hún komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins sem lauk um s.l. helgi í Marokkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×