Erlent

Skotárásin í Kaliforníu: Fjölmargir upplifðu einnig skotárásina mannskæðu í Las Vegas á síðasta ári

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Veitingastaðurinn var afar vinsæll meðal háskólanema.
Veitingastaðurinn var afar vinsæll meðal háskólanema. Vísir/Getty
Allt að 50 til 60 af þeim sem staddir voru á veitingastaðnum og barnum Borderline í Kaliforníu þegar árásarmaður hóf skothríð sem varð tólf manns að bana í morgun upplifðu einnig mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna er 58 létust á tónlistarhátíð í Las Vegas fyrir um ári síðan.

Fjölmargir særðust þegar árásarmaðurinn, landönguliðinn fyrrverandi Ian Long, hóf skothríð inni á veitingastaðnum klukkan 23:20 að staðartíma, eða 7:20 að íslenskum tíma. Hann svipti sig lífi á staðnum en á annað hundrað manns voru inn á staðnum þegar árásin var gerð og þar af voru flestir háskólanemendur.

„Ég var viðstaddur Las Vegas Route 91 skotárásina, ásamt líklega 50 til 60 manns sem voru á veitingastaðnum á sama tíma og ég í kvöld,“ sagði Nicholas Champion í samtali við CBC News. „Við erum ein stór fjölskylda og því miður hefur þessi fjölskylda lent illa í því tvisvar.“

Meðal þeirra sem lést í skotárásinni var lögreglumaðurinn Ron Helus en hann var fyrstur lögreglumanna á vettvang. Hann, ásamt félaga sínum, fylgdi þeirri þjálfun sem hann hafði fengið sem felur í sér að reyna á að komast að árásarmanninum sem fyrst.

Þegar þeir komumst inn á veitingastaðinn var Helus skotinn fjölmörgum skotum. Hann lést af sárum sínum á spítala en hann átti aðeins eitt ár eftir þangað til hann kæmist á eftirlaun.

„Hann dó sem hetja. Hann fór inn til þess að bjarga mannslífum“sagði Geoff Dean, lögreglustjóri Ventura-sýslu þar sem skotárásin átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×