Innlent

Varaborgarfulltrúi vill ekki starfa undir merkjum Pírata

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rannveig Ernudóttir
Rannveig Ernudóttir Rannveig Ernudóttir
Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata í Reykjavík, hefur sent skrifstofu borgarstjórnar erindi þar sem hún óskar eftir því að vera upplýst um stöðu sína gagnvart borginni sem kjörinn fulltrúi, kjósi hún að yfirgefa Pírata. Rannveig segist vilja starfa áfram í þágu borgarbúa, en þó ekki lengur undir merkjum Pírata.

Í samtali við fréttastofu lýsir Rannveig ætlun sinni að hætta í Pírötum en segir það einlægan vilja sinn að halda áfram að vinna fyrir borgarbúa.

„Það var tilgangurinn með því að fara í framboð og ég vil það auðvitað, en ég vil ekki vinna með Pírötum þegar vinnuumhverfið er svona.“

Rannveig vísar þar í deilur innan Pírata en hún birti langa færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í kvöld í tilefni af úrskurði úrskurðarráðs Pírata sem komst að þeirri niðurstöðu að víkja ætti starfsmanni flokksins frá störfum þar sem ekki hafi verið rétt staðið að ráðningu hans.

Í færslunni segir Rannveig úrskurðinn vera hluta af ljótri mynd sem sé „reifuð af ofbeldi, valdníðslu, einelti, mikilli vanhæfni og ofmati eineltistudda á eigin ágæti.“

Þá sakar hún ónafngreinda einstaklinga innan Pírata um eineltistilburði og um að notfæra sér uppbyggingu flokksins til þess að níða og hrekja burt þá sem þeir telji „ópíratalega.“

Fleiri hafa sagt sig úr flokknum að undanförnu en stutt er síðan Sindri Viborg, fyrrum formaður framkvæmdaráðs Pírata, sagði sig úr flokknum.

Færslu Rannveigar í heild sinni má sjá hér að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×