Erlent

Veita aukið fjármagn í rannsóknina á hvarfi Madeleine McCann

Birgir Olgeirsson skrifar
Madeleine McCann var tæplega fjögurra ára þegar hún hvarf í Portúgal árið 2007.
Madeleine McCann var tæplega fjögurra ára þegar hún hvarf í Portúgal árið 2007. Vísir/EPA
Breska innanríkisráðuneytið hefur ákveðið að veita 150 þúsund pundum aukalega í rannsóknina á hvarfi Madeleine McCann. Fréttastofa Sky í Bretlandi greinir frá þessu en þar kemur fram að lögreglan í Lundúnum hefði ekki yfir nægu fjármagni að ráða til að halda rannsókninni áfram. Var það ljóst í september síðastliðnum og fór lögreglan því fram á aukafjárveitingu frá innanríkisráðuneytinu.

Er vonast til að þessi 150 þúsund pund, sem gera um 24 milljónir íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, dugi til að standa undir rannsókn hvarfsins þar til 31. mars næstkomandi.

Sky segir frá því lögreglan hafi þurft að sækja um aukafjárveitingu vegna rannsóknarinnar á hálfs árs fresti. Innanríkisráðuneytisins segist meta það út frá samtölum við lögregluna hvort tilefni sé til aukafjárveitingar vegna rannsóknarinnar sem hefur kostað breska ríkið 11,7 milljónir punda, eða því sem nemur um 1,8 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Foreldrar Madeleine McCann, Gerry og Kate.Vísir/EPA
Madeleine var tæplega fjögurra ára gömul þegar hún hvarf í portúgalska bænum Praia da Luz þar sem hún var í fríi með foreldrum sínum árið 2007. Foreldrar hennar höfðu skilið hana eftir í íbúðinni ásamt systkinum tveimur á meðan þeir héldu á veitingastað ásamt vinum sem var í nokkurra tuga metra fjarlægð frá íbúðinni.

Portúgalska lögreglan rannsakaði málið en árið 2013 ákvað lögreglan í Lundúnum að hefja eigin rannsókn.

Á meðal þess sem hefur verið unnið eftir er að Madeleine hafi verið numin á brott, hún hafi sjálf farið úr íbúðinni eða að hún hafi látið lífið í íbúðinni.

Foreldrar hennar, Kate og Gerry McCann, höfðu stöðu sakbornings í Portúgal þar til saksóknari ákvað að fella rannsóknina niður vegna skorts á sönnunargögnum. Voru foreldrarnir um tíma grunaðir um að hafa reynt að hylma yfir að Madeleine hefði látist af slysförum í íbúðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×