Borið hefur á uppsögnum fyrirtækja síðustu mánuði en samkvæmt könnun sem Samtök atvinnulífsins létu gera á meðal aðildarfyrirtækja sinna hefur 3.100 starfsmönnum verið sagt upp síðustu þrjá mánuði, þar af 2.600 síðustu þrjátíu daga. Í könnuninni kom fram að fyrirtækin áætla að 2.800 manns verði sagt upp á næstu þremur mánuðum. Ragnar segir könnunina illa framsetta.
„Samtök atvinnulífsins hafa verið að kalla eftir ábyrgari umræðu. Við séum að nálgast hlutina á uppbyggilegri nótum. Þetta kom því á óvart og er dapurlegt,“ segir Ragnar.
Niðurstöður könnunarinnar voru með fyrirvara um að ekki var spurt um nýráðningar eða áform um ráðningar. Ragnar setur spurningamerki við þá framsetningu og bendir á að samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru atvinnulausir 3.100 nú í september en 7.400 í janúar. Atvinnuleysi sé því í heildina á litið lítið hér á landi.

„Samtök atvinnulífsins hafa ekki komið með neinar raunverulegar lausnir, eða tillögur að lausnum. Mér finnst að við eigum að einbeita okkur að lausnunum í staðin fyrir að draga upp dökka mynd af samfélaginu,“ segir hún og Ragnar bætir við að verkalýðshreyfingin vilji að lífsgæðin hér verði með svipuðum hætti og í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
„Við eigum að þétta raðirnar frekar um að bæta samfélagið í staðinn fyrir að standa í svona óþolandi og grímulausum áróðri eins og Samtök atvinnulífsins eru uppvísa að því að gera,“ segir Ragnar.